141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

samningar við kröfuhafa gömlu bankanna.

[10:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra hafi öflugt og náið samstarf við aðra stjórnmálaflokka, foringja eða formenn þeirra, eða hvað við köllum þá nú, því að það er mjög mikilvægt að settur verði fullur þungi á að gera þeim aðilum sem eru hinum megin við borðið grein fyrir því að Íslendingum er full alvara í því að hafa stjórn á því hversu mikið fjármagn fer út úr landinu.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé markmið ríkisstjórnarinnar að klára þær formlegu viðræður sem hér er talað um að fari af stað fyrir kosningar. Það er mikilvægt að fá svar við því. Ég tel í það minnsta, og er sammála ráðherranum um það, að menn eigi að fara sér mjög hægt og setja ekki neina pressu á að klára málið (Forseti hringir.) fyrir kosningar.