141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

breyting á lögum um almannatryggingar.

[10:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Nú fyrir stuttu var frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning dreift í þinginu. Með frumvarpinu fylgir umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Segja má að frumvarpið gangi í megindráttum út á einfalda núverandi lagaumhverfi um almannatryggingar og er það ágætt. Ég held að allir séu sammála um að taka megi á málum þar.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram hörð gagnrýni sem felst aðallega í því að ekki hafi verið haft samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið við undirbúning frumvarpsins um möguleg áhrif þessara breytinga fyrir ríkissjóð. Fram kemur að tíðkast hafi hingað til að hafa samráð við fjárlagaskrifstofuna þegar til standi að fara í viðamiklar breytingar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi skoðun á því verklagi og hvort hún hafi þá skoðun að hægt sé að fara í þær viðamiklu breytingar sem hér eru lagðar til án þess að þessi mikla greining hafi farið fram og án þess að spurningum varðandi það hvernig fjármagna eigi breytingarnar sé svarað. Fram kemur í umsögninni að engin greining eða áætlunargerð hafi farið fram við undirbúning frumvarpsins að því hvernig fjármagna megi svo mikla útgjaldaaukningu og að ekkert samráð hafi verið haft um það við fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Fyrir liggur að ríkisstjórnin setti sér langtímaáætlun varðandi jöfnuð í ríkisfjármálum á næstu árum. Í þeirri áætlun er hvergi gert ráð fyrir slíkum breytingum á útgjöldum ríkissjóðs og lagt er til með frumvarpinu, eða eins og fram kemur í frétt í Morgunblaðinu í dag; 23 milljarða útgjaldaaukning á fimm árum. Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því? Telur hæstv. ráðherra það vera vinnubrögð sem viðhafa eigi við gerð og undirbúning svo stórra breytinga?