141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

breyting á lögum um almannatryggingar.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Það frumvarp sem hv. þingmaður nefnir um almannatryggingar er frumvarp sem hefur verið unnið að í þverpólitískri nefnd. Ég veit að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru meðal annarra þar inni þannig að heppilegt hefði verið ef nefndin hefði kallað eftir því á einhverjum tímapunkti að fjármála- og efnahagsráðuneytið kæmi að vinnunni með einhverju svona mati.

Ég er því sammála því að betra hefði verið í vinnu nefndarinnar ef eftir því hefði verið kallað. Engu að síður var haft samráð þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið fékk þetta mál síðan til umfjöllunar í lok nóvember sl. Þá tókum við okkur góða tvo mánuði til að vinna málið, þannig að greiningin hefur verið unnin. Það er kannski ekki alveg rétt að ekkert samráð hafi verið haft við fjármála- og efnahagsráðuneytið um málið, en það er þó ekki fyrr (Gripið fram í.) en á þeim tíma. Fram að því er það rétt. Á meðan á vinnunni stóð, eins og ég sagði áðan … (Gripið fram í.) Ef hv. þingmaður leyfir mér kannski að hafa orðið þá er það rétt sem fram kemur að á meðan á störfum nefndarinnar stóð, þar sem allir flokkar á Alþingi áttu aðild, var ekkert samráð haft við ráðuneytið. Hins vegar var það gert vel á eftir og við höfum unnið með málið síðan.

Eins og fram kemur í þessari umsögn er alveg ljóst að við ætlum okkur að standa við áður útgefna áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum þegar við ætlum að loka fjárlagagatinu á næsta ári. Við ætlum að skila jákvæðum heildarjöfnuði á næsta ári og við það verður staðið. Þegar þetta frumvarp verður að lögum er verkefnið að finna því stað í ríkisfjármálaáætlun með því að afla tekna eða forgangsraða með öðrum hætti. Þarna sýnum við jafnaðarmenn líka með hvaða hætti við ætlum að forgangsraða: a. svigrúm sem gætu skapast innan fjárlaga og b. í þágu þeirra sem þurfa á almannatryggingum að halda.