141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

uppbygging á Bakka.

[10:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að velkjast í vafa um það að ein stærstu mistök á þessu kjörtímabili eru þau hvað ríkisstjórninni hefur tekist illa að koma í gang atvinnu- og verðmætasköpun í samfélagi okkar. Við sjáum það endurspeglast í því þegar ríkisstjórnin leggur núna fram eins konar óskalista um átak í velferðarmálum og gagnvart Lánasjóði íslenskra námsmanna er verið að gefa út einhver loforð sem engir fjármunir eru til að standa við. Það má auðvitað rekja til þess að hér hefur ekki orðið sú tekjumyndun og sú verðmætasköpun sem skapar aukin umsvif í samfélaginu.

Ríkisstjórnin hefur staðið gegn uppbyggingu atvinnutækifæra á kjörtímabilinu. Skemmst er að minnast þess þegar Alcoa hætti við framkvæmdir á Bakka. Meiri hlutinn hér í þingsal klappaði þegar það var tilkynnt. Ég hygg að hæstv. umhverfisráðherra hafi verið í þeim hópi.

Nú eru kynnt til sögunnar ný verkefni á Bakka og ég fagna því út af fyrir sig. En við erum að horfa þar á fjárfestingu sem nemur um fimmtungi af þeirri fjárfestingu sem Alcoa ætlaði að standa fyrir og ríkisstjórnin neitaði að skrifa undir samstarfssamning um að halda áfram með. (Gripið fram í.) Innviðafjárfestingin er sennilega upp á tæpa 4 milljarða (Gripið fram í.) sem öll mun lenda á ríkissjóði vegna þess að verkefnið er svo lítið í fjárfestingu að það stendur ekki undir sér. Rúsínan í pylsuendanum er sú að starfsemin sem ríkisstjórnin hyggst núna setja upp á Bakka mengar fimm sinnum meira á hvert framleitt tonn en álverksmiðja gerir. (MÁ: Ertu á móti þessu?) Ég er mjög hlynntur þessum framkvæmdum, en ég vil inna hæstv. umhverfisráðherra eftir því hvort hún sé sátt við þá fyrirætlan að fá þarna verksmiðju sem mengar fimm sinnum meira á hvert framleitt tonn. (Forseti hringir.) Ríkissjóður þarf að standa undir innviðafjárfestingunni og fjárfestingin og útflutningsafurðirnar eru margfalt minni en af þeirri framkvæmd sem hún (Forseti hringir.) sat hér í stól ásamt meiri hlutanum á þingi og klappaði fyrir að hætta var við. (Gripið fram í: … fjölbreytni … )