141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

innheimta og ráðstöfun tryggingagjalds.

[11:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Forseti. Svarið er einfaldlega svona, ríkið er að taka það á sig af því að verið er að veita ívilnanir, verið er að veita afslátt af almenna hluta tryggingagjaldsins til þess að koma fjárfestingu af stað, hvað svo sem um ræðir. Það á við um almennu löggjöfina um ívilnanir og það á líka við um einstaka samninga sem gerðir hafa verið utan hennar. Það snýst einfaldlega um að ríkið sér tímabundið alfarið um, eða að hluta til eins og þarna kemur fram, þessa aðila og réttindi þeirra, þ.e. að öðru leyti en því sem snýr að því ef þeir missa vinnuna. Þetta er eitthvað sem hefur alveg legið klárt fyrir að vilji hefur verið til að gera tímabundið. Þetta eru tíu ára samningar, flestir, sem gerðir eru í gegnum almennu löggjöfina. Einn sem liggur núna fyrir þinginu er 14 ára, aðrir eldri samningar hafa varað lengur. Þarna er um að ræða tímabundnar ívilnanir eins og skattaívilnanir líka að öðru leyti. Starfsmennirnir hafa samt rétt til skólagöngu eða senda börnin sín í skóla og keyra hér um á vegunum eins og aðrir. (Forseti hringir.) Þetta er gert markvisst til þess að örva fjárfestingu í landinu og þá er farið svona með almannahluta tryggingagjaldsins eins og tekjuskatt og aðra afslætti sem veittir eru.