141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

takmörkun umræðu um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[11:07]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Forseti. Fyrirhugað er að hefja hér mjög takmarkaða umræðu um frumvarp til stjórnarskipunarlaga og taka svo málið af dagskrá. Ég mótmæli harðlega þeirri fundarstjórn forseta sem gengur í þessa veru. Þjóðin greiddi atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál, að hún vildi fá málið sem sína stjórnarskrá. Hér er mjög lítill minni hluti þingmanna að taka sér alræðisvald með því að taka málið af dagskrá og ganga gegn vilja þjóðarinnar. Í lýðræðisríki kemur allt vald frá þjóðinni. Í ríkjum sem eru ekki lýðræðisríki kemur valdið frá fámennum klíkum.

Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur forseta þingsins og formanns Samfylkingarinnar á því ástandi sem hugsanlega getur skapast á Íslandi þegar lítil klíka manna á Alþingi Íslendinga gengur fram með þessum hætti og gengur þvert gegn vilja þjóðarinnar. Það getur skapast mjög varasamt ástand og á því ber núverandi forseti Alþingis fulla ábyrgð.