141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fólk er nú margt og ólíkt. Mér hefur aldrei fundist neitt óeðlilegt við það að yfirfara það sem ég hef tekið þátt í og jafnvel breyta því eða leggja til breytingar á því. Ég veit að það er afskaplega erfitt og þess vegna segi ég stundum að fólk eigi ekki að vera í sama starfinu í meira en fimm ár því yfirleitt er full ástæða til að endurskoða það sem þú gerðir eftir fimm ár. Ég hef reynt að tileinka mér þetta og talið að það væri einmitt eitt af því sem væri í þinginu, tillögur væru lagðar fram, þær væru ræddar og skoðaðar og síðan ætti að reyna, ef fólki væri það nokkurn veginn mögulegt, að reyna að komast að einhverjum samnefnara. Ég sé að við Pétur H. Blöndal erum ekki sammála um það en nú er það náttúrlega mikil vitleysa að einhver í nefnd geri eitthvað einn. Það er samstarfið og samverkamennirnir sem skipta meginmáli. Við höfum talið rétt að gera þetta svona til að koma til móts við gagnrýnisraddir sem hafa heyrst. Ég held að það hafi tekist, en ég skal alveg taka við skömmum fyrir það ef það hefur ekki gerst.