141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:33]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er í fyrsta skipti á þingferli mínum sem hefur staðið í fjögur ár sem ég á erfitt með að taka til máls vegna sorgar yfir því hvernig verið er að fara með þetta mál hér í þinginu. Fjölmiðlar eru ekki viðstaddir núna þegar hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mælir fyrir breyttu nefndaráliti og nýjum breytingartillögum. Þá eru fjölmiðlar fjarverandi því að fregnir berast af því og það vita allir að það á að semja um þetta mál út af dagskrá þingsins. Það eru hrikalegar fréttir eftir allt sem á undan er gengið. Það er svakaleg niðurstaða fyrir allt það atgervi sem lagt hefur verið í þetta mál og alla þá áreynslu og vinnu sem að baki liggur. Að hlusta svo á andsvör sjálfstæðismanna í skætingslegum tóni við hv. formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eftir allt sem á undan er gengið er agalegt. Þessi atburðarás er öll í boði Sjálfstæðisflokksins. Þetta er í annað skipti sem þeir koma í veg fyrir það með málþófi eða hótun þar um að þjóðin fái nýja stjórnarskrá og þann samfélagssáttmála sem henni var heitið, sem störf okkar hafa gengið út á, allur sá ferill sem settur var á stað í upphafi kjörtímabils hefur gengið út á eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir lýsti svo vel í ræðu sinni áðan. Það er þyngra en tárum taki og ég lýsi sorg yfir því hvernig þetta mál er statt og andúð á vinnubrögðum Alþingis, sem stundum hefur verið kallað hið háa Alþingi.