141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Já, það er einmitt það sem verður svo sárt ef það verður veruleikinn að við fáum ekki fyrstu heildstæðu stjórnarskrána í gegnum þingið á þessu þingi, því þetta er svo merkilegt plagg. Ég vil taka hatt minn ofan fyrir meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem var tilbúinn til að taka við ábendingum og skrifa þær hér inn af mikilli árvekni og samstarfsanda. Brugðist var við þeim ábendingum sem komu frá Feneyjanefndinni, það eru þær sem við ræðum um hér núna. Það var brugðist við þeim og er það einhvern veginn réttlætanlegt að þingið ætli síðan að loka og skrúfa fyrir málið? Það er ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn sem er ábyrgur fyrir því. Það er líka forseti Alþingis því hún hefur neitað að setja málið á dagskrá trekk í trekk og lengja þingdaga þannig að við getum rætt málið í þaula.