141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður var ekki búinn að kanna gögnin sín eða lesa þau yfir sem hann er búinn að sanka að sér í tilefni þess máls sem við erum hér að ræða en hann vék þó sérstaklega að einum þætti sem skiptir verulega miklu máli, þ.e. hvernig á að breyta stjórnarskrá. Af máli hans mátti skilja að með þeirri tillögu sem hér er gerð um 114. gr., held ég að númerið sé, væri of létt verk að breyta stjórnarskrá.

Í stuttu máli er þessi tillaga þannig að 60% þingmanna þarf til þess að samþykkja stjórnarskrárbreytingu. Náist sá aukni meiri hluti, sem er 38 þingmenn, ber að leggja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það má þó ekki gera fyrr en sex mánuðir eru liðnir en lengst níu mánuðir og í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu þarf einnig 60% meiri hluta.

Hvað finnst hv. þingmanni of léttvægt í þessu? Nú hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd farið mjög vandlega yfir ótal tillögur í þessum efnum og ég vek athygli á því að í fyrstu tillögum stjórnlagaráðs var gert ráð fyrir því að sumum ákvæðum stjórnarskrár gæti þingið breytt eitt og sér án aðkomu þjóðarinnar.

Sérfræðinganefndin lagði til tvenns konar leiðir til að breyta stjórnarskrá. Við höfum fengið ráðleggingar sérfræðinga innan lands og utan um þetta efni og ég tel að hér sé komin mjög góð leið til að breyta stjórnarskrá, hvorki of ströng né of létt. (Forseti hringir.) Mig langar til að fá betri útskýringar frá hv. þingmanni.