141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:30]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Rökin eru einföld, það er lýðræðislegra. Það er lýðræðislegra að lítill minni hluti geti ekki stöðvað allar breytingar á stjórnarskrá, hversu litlar eða stórar sem þær kunna að vera.

Það er líka nauðsynlegt að breyta þessu vegna þess að með þessu móti er aldrei hægt að breyta stjórnarskrá nema í lok kjörtímabils og stundum lýkur kjörtímabilum fyrr en menn hafa ætlað og þá er ekkert hægt að gera í stjórnarskrárbreytingum fyrr en eftir fjögur ár.

Hvað þýðir tilhneigingin núna að vísa þessu máli að óbreyttu þessu ákvæði inn á næsta kjörtímabil? Það þýðir að eftir fjögur ár væri hægt að taka afstöðu til þeirra tillagna sem við erum með á borðum hér í dag. Og hversu gamlar eru þá tillögur stjórnlagaráðs orðnar? Sex ára.

Þetta er ástæðan (Forseti hringir.) fyrir því að nauðsynlegt er að breyta þessu. Og ég spyr enn: (Forseti hringir.) Hvað finnst þingmanninum eðlilegt? Þetta er það þyngsta sem þekkist í heiminum nema þar sem eru einvaldar sem segja bara nei.