141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[15:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér kemur til atkvæða eftir 2. umr. frumvarp til laga um neytendalán og eru meðfylgjandi í 12 liðum breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar. 1. og 12. breytingartillaga meiri hlutans eru kallaðar til 3. umr. þar sem við hyggjumst fara betur yfir þau atriði á milli 2. og 3. umr. Sömuleiðis munum við fara á milli 2. og 3. umr. nánar yfir þær tillögur minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem kallaðar verða til 3. umr. en ekki er unnt að samþykkja nú tillögur sem koma frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni 2. umr.

Þær breytingartillögur meiri hlutans sem mestu máli skipta í þessu máli eru um að upplýsa neytendur betur um verðtryggingarþáttinn í neytendalánum og að tryggja það að í árlegri hlutfallstölu kostnaðar sé tilgreint um verðbótaþáttinn til að neytendur fái sem bestar upplýsingar og að það sé örugglega rétt og löglega staðið að veitingu þessara lána á Íslandi.