141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[15:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, neytendavernd á fjármálamarkaði á Íslandi er í algjörum molum. Það liggur ekki einu sinni fyrir hvert neytendur geta snúið sér, hvort þeir eiga að snúa sér til Fjármálaeftirlitsins eða Neytendastofu. Ég hefði viljað sjá stórkostlegt átak í því að bæta stöðu neytendaverndar sem er mjög ábótavant og við horfum upp á marga harmleiki hjá mörgum fjölskyldum vegna þessa.

Síðan tek ég líka undir að margt í þessu frumvarpi er órætt, það er ekki fullmótað. Sum atriðin eru mjög flókin.

Ég mun sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu en vonast til þess að þegar nefndin hefur fjallað um þetta milli 2. og 3. umr. sé komin skýr stefna í því hvert menn ætla að fara. Sérstaklega þætti mér vænt um það ef nefndin gæti tekið sér tak og ákveðið hvar neytendavernd á að vera.