141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

menningarstefna.

196. mál
[15:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið við þessa atkvæðagreiðslu og þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða vinnu í málinu og fagna því að við göngum nú til atkvæða um þingsályktunartillögu um menningarstefnu. Það er í fyrsta skipti sem slík stefna er lögð fyrir Alþingi og ég vona að hér hafi skapast fordæmi fyrir því að við höldum áfram að ræða hin breiðu leiðarljós okkar samfélags í menningarmálum sem er rétt og eðlilegt að ræða einmitt á vettvangi Alþingis. Ég vil því nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari vinnu fyrir góðar og málefnalegar umræður.