141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

menningarstefna.

196. mál
[15:25]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um menningarstefnu sem er að mati þess sem hér stendur brýnt að setja. Menningarstarfsemi í landinu er að verða ein af burðaratvinnugreinum landsmanna eins og hagtölur vitna um og breikkar mjög ásýnd atvinnulífsins.

Ríkið kemur að hinum hefðbundnu greinum atvinnulífsins með margvíslegum hætti, iðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi með beinum styrkjum, með ívilnunum, með beingreiðslum og sjóðastarfsemi af margvíslegu tagi. Það er því fullkomlega eðlilegt að þeirri rísandi atvinnugrein, sem menningarstarfsemi í landinu er, sé sýndur sami bragur og öðrum atvinnugreinum í landinu með því að setja menningarstefnu, með því að búa atvinnugreininni góða umgjörð og einfaldlega með því að viðurkenna að þarna getum við sótt fram svo um munar.