141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:34]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er í rauninni stórkostlegt miðað við allan andróðurinn, alla þá steina, allt það grjót og öll þau björg sem hafa verið lögð í götu þess ferlis sem hófst hér fyrir kosningar 2009 að setja nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland, að við skulum vera komin hingað á þennan stað og standa með í höndum fullbúið frumvarp með skýringum við hverja einustu grein. Það er merkilegt. Það hefur tekist allt of oft að tefja fyrir þessu ferli, það hefur tekist allt of oft að tala ferlið niður. Enn er haldið áfram á þeirri vegferð en það verður ekki aftur snúið. Við erum komin hingað með fullmótað plagg með ítarlegar skýringar eins og kallað hefur verið eftir.

Ég segi að það sé stórkostlegt, ekki bara miðað við alla þá tafaleiki og öll þau björg sem hafa verið lögð í veg ferlisins heldur líka miðað við innihaldið, vegna þess að við höfum fylgt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem var 20. febrúar sl. Við höfum fylgt vilja stjórnlagaráðs og við höfum líka brugðist við ábendingum og athugasemdum, unnið og látið vinna ítarlegar skýringar sem skorti í upphaflegt frumvarp og við höfum hlustað eftir röddum innan þings og utan. Við höfum tekið til greina breytingartillögur sem komu frá nefndum þingsins, allflestar þær tillögur hafa verið teknar til greina og eins tillögur utan úr bæ og frá útlöndum, tillögur sérfræðinga jafnt sem almennings. Allt þetta höfum við skoðað í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, við höfum farið yfir þetta, metið og vegið.

Við höfum ekki orðið við öllum ábendingum enda eru þær sumar þannig að þær samrýmast í rauninni ekki okkar lýðræðishefð eða lýðræðisvitund. Ég vil nefna eitt dæmi um það að Feneyjanefndin telur að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi ekki að hafa almennt, það sé ekki nógu sniðugt, þingin og þjóðkjörnir fulltrúar eigi bara að ráða þessu. (Gripið fram í.) Við tókum ekki mið af þeim ábendingum, okkur kom það ekki til hugar. En við tókum mið af öðrum ábendingum sem komu frá Feneyjanefndinni, ég tala nú ekki um þær sem voru samhljóða því sem við höfum heyrt frá íslenskum sérfræðingum í stjórnskipunarrétti og farið var vandlega yfir í morgun af hv. þingmanni og formanni nefndarinnar, Valgerði Bjarnadóttur, eins og að endurraða mannréttindakaflanum upp á nýtt, við fórum eftir því. Ég held að prófessor við Háskóla Íslands í stjórnskipunarrétti, Björg Thorarensen, hafi verið fyrst til að nefna þetta fyrir tveimur árum eða svo. Þetta er búið að koma endurtekið í gegnum ferlið og við höfum hlustað á þær raddir og þetta er allt saman komið inn með ítarlegum skýringum bæði af nefndasviði og sérfræðingum. Við höfum líka hlustað á einstaka nefndarmenn, tókum tillögu frá hv. þm. Birgi Ármannssyni og gerðum að okkar, svo að dæmi sé tekið. Þannig höfum við farið yfir þetta allt. Ég fagna því, eins og ég segi, að við höfum í höndum þetta fullbúna frumvarp og skýringarnar.

Þá ber svo við, herra forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn og kannski líka Framsóknarflokkurinn neita að leiða málið til lykta. Það kemur ef til vill ekki öllum alveg á óvart en mótbárurnar eru þær sömu og fyrr: Greinargerðin er óskýr. Halló, það er búið að vinna nýjar skýringar sem liggja fyrir á 100 blaðsíðum. Menn hafa þá ekki lesið.

Sagt er að ekki hafi verið hlustað á fræðimenn. Það er einfaldlega rangt. Svo segja menn að engin þörf sé á því að endurskoða stjórnarskrána og alla vega ekki mannréttindakaflann því að aðeins tæp 20 ár séu síðan hann var endurnýjaður. Herra forseti. Það hefur nú talsvert mikið gerst í þróun á mannréttindaákvæðum á því tímabili. Loks segja menn að tíminn sé of knappur, aðeins séu sjö dagar eða eitthvað slíkt eftir, þegar sýnt hefur verið fram á að við höfum haft 700 daga, þingdaga, til að fara yfir málið. Það frumvarp sem liggur fyrir hefur verið rætt ítrekað í þingsal og í hverju skrefi ferlisins höfum við farið yfir þetta. Nú segja menn að tíminn sé of knappur. Sjálfstæðisflokkurinn vill alls ekki samþykkja að breyta allri stjórnarskránni eða búa til nýja stjórnarskrá eins og hér liggur fyrir. Og Framsóknarflokkurinn kallar eftir samráði, segja þeir, um einstakar greinar. Ég verð að segja, herra forseti, að þetta ákall eftir samráði hefur ekki birst í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, því miður. Þar hefur þvert á móti, eins og fram kom í morgun, frekar verið um sinnuleysi, áhugaleysi og afskiptaleysi fulltrúa þessara flokka að ræða, því miður.

Nú ber svo við, herra forseti, að ekki er einungis kallað eftir samráði, heldur las ég á mbl.is að Framsóknarflokkurinn telur sig hafa lagt fram málamiðlun um auðlindaákvæðið. Hvað skyldi nú felast í því, herra forseti? Í fyrsta lagi vill flokkurinn flytja aftur auðlindaákvæði sem kom fyrst fram á árinu 2000 frá auðlindanefndinni svokölluðu, og ég kem aðeins nánar að því á eftir. Í öðru lagi vill Framsóknarflokkurinn að gefin verði einhver yfirlýsing frá forustu flokkanna og í þriðja lagi er tekið fyrir það að breyta ákvæðinu um hvernig á að breyta stjórnarskrá.

Svo að ég taki aðeins það síðasta fyrst. Hvað þýðir það að breyta ekki ákvæðinu um hvernig á að breyta stjórnarskrá og skilja við málið með þeim hætti? Það þýðir að það mun taka fjögur ár, fjögur ár til viðbótar, að fara yfir það frumvarp sem við erum með. Hvað skyldu tillögur stjórnlagaráðs þá vera orðnar gamlar? Þá verða þær orðnar sex ára gamlar. Og ætli menn vilji þá ekki byrja upp á nýtt, eins og menn vilja, þrátt fyrir alla þá vinnu sem fyrir liggur?

Þetta er alveg fráleit tillaga. Það er alveg fráleit tillaga að ætla sér að kasta því frumvarpi sem hér liggur fyrir og taka það upp eftir fjögur ár. Út á það gengur tillagan ef marka má það sem kallað er málamiðlun framsóknarmanna. Hvað þýðir það að gefa yfirlýsingu en ekki að koma fram með þingsályktunartillögu, eins og formenn stjórnarflokkanna hafa verið að kalla eftir ásamt Guðmundi Steingrímssyni? Það þýðir að það bindur ekki nokkurn mann. Engin skuldbinding er fólgin í slíkri yfirlýsingu formanna flokka eða annarra gagnvart kjósendum eða frambjóðendum eða gagnvart þingmönnum, ekki nokkur.

Þetta er mjög miður og engan veginn ásættanlegt og engin málamiðlun í því fólgin. En hitt er þó sýnu verra að Framsóknarflokkurinn dregur upp auðlindaákvæði frá árinu 2000, sem flokkurinn lagði til hliðar og hafnaði á árinu 2009 með frumvarpi sem lagt var fram af formönnum allra flokka á Alþingi annarra en Sjálfstæðisflokksins og var 385. mál á 136. löggjafarþingi, þ.e. frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Flutningsmenn Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Birkir Jón Jónsson og Guðjón A. Kristjánsson.

Í því frumvarpi fór Framsóknarflokkurinn frá tillögum auðlindanefndarinnar enda, herra forseti, hvað er fólgið í þeim? Um hvað snúast tillögur auðlindanefndarinnar frá árinu 2000? Þær eru skrifaðar í kringum kvótakerfið. Með þeim segir að heimildin til afnota eða hagnýtingar á auðlindum og réttindum gegn gjaldi njóti verndar sem óbein eignarréttindi. Verið er að einkavæða auðlindina, verið er að veita þeim sem fá hagnýtingarleyfi á auðlindinni eignarréttaraðild að auðlindinni. Þetta kalla framsóknarmenn nú málamiðlun. Sér er nú hver málamiðlunin.

Ég verð að lýsa því yfir að ég hef orðið fyrir verulegum vonbrigðum með þessa afstöðu Framsóknarflokksins því að hún er gerbreytt frá árinu 2009, gerbreytt. Og að hafna því sem við erum með hér í höndum er gjörsamlega óskiljanlegt. Ég hélt að framsóknarmenn hefðu lært eitthvað á undangengnum árum. Ég hélt að Framsóknarflokkurinn hefði breyst. Ég hélt að Framsóknarflokkurinn hefði sagt skilið við einkavæðingu auðlindanna og það að færa þeim sem hafa nýtingarrétt á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar þjóðareignina á silfurfati sem einkaeignarréttindi þó að þau séu óbein.

Herra forseti. Í þeim tillögum sem liggja fyrir — ég bið þingmenn að líta á það þingskjal sem við höfum, framhaldsnefndarálitið. Á bls. 101 og þar fyrir aftan er mjög góð tafla sem sýnir ákvæðin í heild. 35. gr. fjallar um auðlindir í þjóðareigu þar sem því er lýst yfir að „auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.“

Í 2. mgr. er tekið á þeim eignum ríkisins sem eru fólgnar í félögum, eins og Landsvirkjun, og sem eru fólgnar í ríkisjörðum. Þær eru undirorpnar nákvæmlega sömu skilyrðum og þjóðareignin, sem sagt að „óheimilt er að framselja beint eða óbeint með varanlegum hætti til annarra aðila réttindi yfir jarðhita, vatni með virkjanlegu afli og grunnvatni, sem og námaréttindi, í eigu ríkisins eða félaga sem alfarið eru í eigu þess.“ (Gripið fram í.) Þetta ákvæði var hvergi að finna í niðurstöðum auðlindanefndar frá árinu 2000.

Í 3. mgr. er talið upp hvað telst til þjóðareignar og ég þarf ekki að lesa það fyrir þingmenn, þeir hafa þetta fyrir framan sig.

4. mgr. er lykilgrein þar sem segir: „Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.“ Hún er forsenda og grundvöllur fyrir því hvernig stjórnvöld, sem falið er að fara með þessa auðlind, varðveita hana, fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt, en þau fá einnig heimild til að veita leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda. Þau leyfi verða að byggjast á því að hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Herra forseti. Síðasta setningin í 35. gr. er: „Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis.“

Í tillögunni sem Framsóknarflokkurinn flytur okkur, herra forseti, er hins vegar áskilið að slík leyfi, slík heimild til afnota nýtur verndar sem óbein eignarréttindi. Ég verð að segja miðað við útspil Framsóknarflokksins að Vinstri hreyfingin – grænt framboð getur ekki fallist á þær hugmyndir, féllst ekki á þær árið 2000, féllst ekki á þær árið 2009 og fellst ekki á þær á árinu 2013. Þingflokkurinn áskilur sér að sjálfsögðu rétt til að flytja breytingartillögu við núgildandi stjórnarskrá um að við hana bætist það ákvæði sem er að finna í 35. gr. til nýrrar stjórnarskrár um auðlindir í þjóðareign, ef svo fer sem ég vona að verði ekki, að það frumvarp sem við erum með nái ekki endanlegri afgreiðslu á þessu þingi. Þannig er nú bara það.

Ég hafði hugsað mér, herra forseti, að fara betur yfir ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Ég ætla aðeins að segja, því að á tíma minn saxast, að ítarlegar skýringar eru á því ákvæði í greinargerðinni og með þeirri grein er í rauninni fest í sessi sérstök tegund eignarréttar sem er þjóðareignarrétturinn. Hann er til hliðar við hinn hefðbundna einkaeignarrétt einstaklinga og lögaðila. Verið er að skapa þessum þjóðareignarrétti stjórnskipulega vernd og menn ættu þá ekki að þurfa að velkjast í vafa um það lengur, eins og menn hafa verið að tala um á undanförnum missirum, að það sé ekkert til sem heiti þjóðareign. Með þessum skýringum er algjörlega fullkomlega frá því gengið hvað þar er um að ræða.

Einnig er verið að girða fyrir það að réttur þjóðarinnar til sameiginlegra auðlinda sinna fari halloka fyrir réttarvernd einkaeignarréttarins með því að lyfta honum upp á sama sess sem sérstökum eignarrétti en einnig með því að taka á því að nýtingin, nýtingarleyfi muni aldrei og geti aldrei skapað forræði eða eignarrétt.

Ég vil líka taka fram að ekki er verið að raska óbeinum eignarréttindum sem kunna að hafa skapast með afnotarétti, til að mynda í fiskveiðistjórnarkerfinu. Menn deila um þetta. Það er ekki verkefni stjórnarskrár að skera úr um það til fortíðar, það hlýtur að vera verkefni dómstóla. Það sem við erum að gera og þurfum að gera og þjóðin vill að þetta þing geri er að festa í sessi þjóðareign á auðlindum okkar, á auðlindum í náttúru Íslands. Við höfum tækifæri til þess, við höfum tækifæri sem kannski kemur aldrei aftur, ef þeir flokkar sem hér hafa ráðið í áratugi fá að ráða áfram eftir næstu kosningar. Ég verð að segja, herra forseti, að ég óttast það og ég hvet þingmenn til að hugsa ráð sitt.

Við stöndum hér á tímamótum. Við höfum tækifæri sem við megum ekki láta okkur renna úr greipum. Við þurfum að ljúka því verki sem okkur var falið. Við erum hér, 63 þingmenn, í vinnu við það. Ég held að við ættum að horfa til þess, klára verkið, samþykkja þær tillögur sem liggja fyrir, en þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs áskilur sér allan rétt til þess að flytja, endurflytja og flytja aftur sem breytingartillögu þetta náttúruauðlindaákvæði ef svo illa kynni að fara að Sjálfstæðisflokknum með aðstoð Framsóknarflokksins tækist að koma í veg fyrir að málinu ljúki nú á þessu þingi.