141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér í lokaumræðu um breytingar á stjórnarskrá, tillögu að nýrri stjórnarskrá sem kom upphaflega frá stjórnlagaráði sem vann mikið starf á allt of stuttum tíma að mínu mati. Það var margt gott í þeim hugmyndum. Síðan var málið flutt af viðkomandi nefnd hjá Alþingi og um það frumvarp ræðum við hér.

Ég ætla að sleppa því að ræða um þau ótalmörgu góðu atriði sem eru í þessu frumvarpi og ég hef margoft nefnt. Ég ætla líka að sleppa því að ræða um þær hættur sem ég tel felast í frumvarpinu og hef þess vegna haft miklar efasemdir um að samþykkja það í heilu lagi. Ég mundi hins vegar gjarnan vilja að menn færu í gegnum það góða sem er í frumvarpinu í góðu tómi og tækju það fyrir lið fyrir lið og samþykktu.

Mig langar til að ræða um breytingar á stjórnarskrá sem núna eru settar niður í 79. gr. í núgildandi stjórnarskrá og eru þannig að það er Alþingi sem setur stjórnarskipunarlög á Íslandi. Alþingi og ekki bara eitt Alþingi heldur þarf tvö til. Það er til þess að breytingarnar verði ekki allt of örar og gerist ekki allt of oft og það myndist ákveðinn stöðugleiki um stjórnarskrána. Það hefur tekist nokkuð vel, herra forseti. Það hafa verið gerðar breytingar á stjórnarskránni og þær hafa verið gerðar í mikilli sátt, t.d. breytingar á mannréttindakaflanum. Breytingar á stjórnarskránni hafa verið mjög hægar. Sumum finnst það of hægt, það má ræða um það.

Hins vegar er það þannig að þjóðin hefur aldrei greitt atkvæði um þessar breytingar sem slíkar. Hún hefur greitt atkvæði um nýtt þing, nýja ríkisstjórn og svo framvegis, hvernig hún vill sjá efnahagsmálum háttað næsta kjörtímabil, en hún hefur aldrei greitt beint atkvæði um stjórnarskrá nema þegar hún greiddi upphaflega atkvæði um stjórnarskrána 1944 og mikill meiri hluti samþykkti hana.

Ég hef það mikla trú á almenningi og þjóðinni, svo ég noti það orð, að ég tel að þjóðin eigi að greiða atkvæði um stjórnarskrá. Þess vegna hef ég í þrígang lagt fram frumvarp um breytingar á 79. gr. einni sér. Nú sýnist mér að stefni í að það verði ofan á að menn fari í slíkar breytingar. Ég vil hins vegar hafa töluvert háa þröskulda, bæði hjá þingi og þjóð. Ég vil hafa háa þröskulda á Alþingi, samþykki 40 þingmanna, nánast 2/3. Það er álíka og í breytingartillögu sem kom fram í dag um breytingar á stjórnarskrá, reyndar til bráðabirgða. En þegar kemur að atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni vil ég að meiri hluti þjóðarinnar sé sammála þeirri breytingu sem gera á, þ.e. að minnst helmingur kjósenda greiði henni atkvæði. Það gerir kröfu til þess að bæði sé mikill áhugi á því að breyta viðkomandi ákvæði í stjórnarskránni, að menn séu ekki að hlaupa til með eitthvað sem skiptir fólkið ekki máli því að þá verður lítil þátttaka. Það gerir líka kröfu til þess að menn séu almennt mjög sáttir við þá breytingu sem gera á.

Það er nefnilega þannig að eftir því sem þröskuldarnir eru hærri, þeim mun sjaldnar verður stjórnarskránni breytt. Þröskuldar geta verið svo háir að henni verður aldrei breytt og það má vel vera að helmingur eða 50% sé of hátt. Kannski mætti ræða um 47%, 45%, eitthvað slíkt, en ég vara við því að menn fari miklu neðar en það þannig að við séum ekki að breyta stjórnarskránni alla daga.

Mér sýnist að sú hugmynd sem nú er að verða ofan á geti einmitt leitt til þess. Það þarf samþykki 2/3 hluta þingmanna á Alþingi. Við getum hugsað okkur tvo flokka sem mynda ríkisstjórn að loknum kosningum. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn, en þeir geta verið með 2/3 hluta þingmanna. Í krafti meiri hlutans gætu þeir knúið fram breytingu á stjórnarskránni. Ef lítill áhugi er á málinu hjá almenningi — og það er ekkert voðalega mikill áhugi hjá þjóðinni á stjórnarskrárbreytingum eða stjórnarskrá yfirleitt — gætu jafnvel ungliðahreyfingar viðkomandi flokka smalað í kosninguna. Ef það tækju fáir þátt í henni, kannski 30, 40%, og ef 2/3 hluti þeirra, þ.e. eitthvað um 25% allrar þjóðarinnar með svona smölun frá ungliðahreyfingunni, gæti þessi meiri hluti á Alþingi náð fram breytingu á stjórnarskránni. Ég vara við þessu.

Ég vil, ef það á að breyta stjórnarskrá, að almennur áhugi sé hjá þjóðinni fyrir því að það sé gert og að hún taki þátt í kosningunni. Það að segja að menn vilji ekki hafa svona mörk vegna þess að þá gætu þeir farið að ráða sem ekki taka þátt í kosningunni — herra forseti, þá er verið að segja að þjóðin hafi ekkert mikinn áhuga á stjórnarskrá. Af hverju ætti þá að vera að breyta henni ef menn hafa ekki áhuga á viðkomandi breytingu og mæta ekki á kjörstað? Ég skora því á menn að hækka þau mörk sem nú er verið að tala um og jafnvel að samþykkja frumvarpið sem ég flutti ásamt fjölda mörgum öðrum þingmönnum. Þetta eru mín lokaorð um stjórnarskrána í bili.