141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru ágætar spurningar. Á Íslandi hefur verið hefð fyrir mjög góðri þátttöku í kosningum yfirleitt, 70, 80% þátttaka er ekki sjaldgæf og sýnir mikinn pólitískan áhuga þjóðarinnar. Ég ætla að vona að hann haldist.

Það að menn geti haft áhrif á kosningar með því að mæta ekki á kjörstað er náttúrlega fráleitt. Menn geta bara mætt á kjörstað og greitt atkvæði gegn málinu ef þeir eru á móti því. (Gripið fram í.) Maður veit ekki hvernig þeir greiða atkvæði sem ekki mæta, það er nú akkúrat málið. Það er ekki sterkt að einhver gæfi út: Ég ætla að hunsa kosningarnar og þannig ætla ég að koma í veg fyrir að málið verði samþykkt. Af hverju segir hann ekki við sitt fólk: Mætið á kjörstað og greiðið atkvæði gegn málinu? Það er miklu sterkara. Ég gef því ekki mikið fyrir þau rök að hægt sé að nota áhugaleysi til að breyta niðurstöðum kosninga.

Mér finnst miklu betra að menn höfði til þess og geri ráð fyrir því að ef breyta á stjórnarskrá sé almennur vilji til þess hjá þjóðinni, og ef menn vilji breyta stjórnarskránni á einhvern hátt eða eru á móti því mæti þeir á kjörstað og greiði atkvæði með eða á móti. Þannig vil ég sjá það. Það hafi afgerandi áhrif á niðurstöðuna hvort menn greiði atkvæði með eða á móti. Ég vil að ef gerðar verða breytingar á stjórnarskrá sé um það sæmileg sátt, mjög góð sátt á þingi, tveir þriðju hlutar þingmanna, og mikil sátt um það líka hjá þjóðinni. Það er slæmt ef ekki er sátt um stjórnarskrá.

Ég gef ekki mikið fyrir það ef sú tillaga sem liggur fyrir frá þremur formönnum stjórnmálaflokka um breytingar á stjórnarskránni til bráðabirgða verður samþykkt og svo kæmi breytingartillaga um 25% atkvæða sem yrði kannski samþykkt. Hvers virði er stjórnarskrá sem einungis 25% þjóðarinnar hafa samþykkt?