141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt um stjórnarskrármálið, fyrr á þessu þingi, við þessa umræðu, 1. umr. og opinberlega, að breytingar á stjórnarskrá séu nokkuð sem við eigum að leitast eftir að vinna í breiðri sátt. Það er grundvallaratriði þegar við ræðum um þessi mál að setja þau ekki í það samhengi að við séum að vinna að stjórnarskrá einstakra stjórnmálaflokka. Við erum ekki að vinna að stjórnarskrá Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Vinstri grænna eða annarra stjórnmálaflokka. Stjórnarskráin á að vera yfir þetta hafin og þess vegna eigum við þegar við erum að vinna að breytingum á stjórnarskrá að reyna að gera það á sem þverpólitískastan hátt.

Það hefur verið gagnrýnt mikið í tengslum við þetta stjórnarskrárferli að ekki hafi verið vilji til þess að taka tillit til þeirra athugasemda sem upp hafa komið. Og nú er farinn í gang mikill farsi á síðustu dögum þingsins þegar fyrir hefur legið í mjög langan tíma vilji til þess, m.a. hjá Framsóknarflokknum, að ræða breytingar á ákveðnum þáttum stjórnarskrárinnar og mynda samstöðu um mikilvæga þætti. Við höfum nefnt í því samhengi auðlindaákvæðið, auðlindir í þjóðareign, og síðan beint lýðræði. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi tvö atriði nái fram að ganga og þau hefðu átt að geta gert það.

Framsóknarflokkurinn lagði í dag fram málamiðlunartillögu í þessu máli. Hún snýr að ýmsum hugmyndum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Í síðustu viku birtust nýjar hugmyndir að auðlindaákvæði dag frá degi og ég held að það sé mikilvægt að við reynum að koma í gegn grein er varðar auðlindir í þjóðareign og náttúruauðlindir. Framsóknarflokkurinn vill gera það sem hægt er til þess að svo megi verða, til þess að mögulegt sé að ná fram ákvæði í þessa veruna. Við höfum lagt það til ítrekað í langan tíma að menn setjist yfir þau mál. Við höfum núna lagt fram grunn að tillögu í því efni. Það er mikilvægt ef við ætlum okkur að koma slíku ákvæði í gegn að menn fari að tala saman og huga að því hvernig málum sé best háttað hvað þetta snertir.

Í tillögu okkar er gert ráð fyrir því að ákvæðið byggi á niðurstöðu auðlindanefndar sem kosin var af Alþingi og skilaði áliti árið 2000. Við leggjum til að bætt verði við þessa tillögu ákvæði um að óheimilt sé að framselja ríkisvald vegna auðlinda til alþjóðlegra stofnana, m.a. vegna þess að þegar við tölum um auðlindir í þjóðareign eigum við líka að loka fyrir það að hægt sé að selja yfirráðaréttinn yfir þessum auðlindum úr landi. Ég hef bent á það í umræðum hérna um þetta mál áður, sagði meðal annars þegar þetta mál var í umhverfis- og samgöngunefnd að það væri mikilvægt að tryggja það að ef menn ætla að hafa auðlindir í þjóðareign eigi þær að vera í þjóðareign. Þá á ekki að vera hægt að selja þær til erlendra aðila, eins og meðal annars Samfylkingin leggur til í utanríkismálastefnu sinni. Á stefnuskrá þess flokks er beinlínis að afsala okkur yfirráðum yfir sjávarauðlindinni til erlendra aðila, til ríkjasambands. Við vitum öll að meðal annars makríllinn er undir yfirráðum Evrópusambandsins og þess vegna er mikilvægt að auðlindaákvæðið taki mið af þessu. Á þetta bentu sérfræðingar sem komu fyrir umhverfis- og samgöngunefnd þegar þetta mál var rætt þar eftir að því var vísað þangað frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Við viljum stuðla að þessu, við viljum auðlindir í þjóðareign og við viljum að það sé tryggt að þær séu þá í þjóðareign og ekki hægt að framselja þær eða yfirráðaréttinn yfir þeim og nýtingarréttinn sem á að vera í dag, samkvæmt þessum ákvæðum, í höndum löggjafar- og framkvæmdarvalds. Þá má ekki vera hægt að framselja það löggjafar- og framkvæmdarvald til alþjóðlegra stofnana. Ég held að þannig eigi að vera hægt að mynda um það breiða samstöðu í þinginu að standa vörð um þessi mál. Það er það sem við viljum vinna að ef vilji er til þess hjá öðrum stjórnmálaflokkum á þeim fáu dögum sem eftir eru á þinginu.

Það hefur líka komið töluvert til tals að breyta því. Nú hafa ríkisstjórnarflokkarnir allir þrír, þ.e. Samfylking, Vinstri grænir og Björt framtíð, lagt fram tillögu þess efnis að breyta ákvæðinu um það hvernig stjórnarskrá skuli breytt.

Ég ætla að lesa úr fréttatilkynningu sem þingflokkur Framsóknarflokksins sendi frá sér í morgun um þennan þátt:

„Þingflokkur framsóknarmanna styður ekki tillögur að breytingum á breytingarákvæði núgildandi stjórnarskrár. Þingflokkurinn hefur lagt áherslu á að sátt ríki um þær breytingar sem gerðar eru á stjórnarskránni. Núgildandi breytingarákvæði hefur á liðnum árum verið mikilvægur liður í að skapa þrýsting á stjórnmálamenn um að ná samstöðu og sátt um breytingar á stjórnarskrá.

Sú vissa að tvö Alþingi þurfi til að samþykkja samhljóða breytingar á stjórnarskrá minnkar líkur á að breytingar á grundvallarlögum ríkisins séu keyrðar í gegnum Alþingi í ágreiningi milli fylkinga, þar sem alþingismenn og þingflokkar þurfa ætíð að taka tillit til mögulega skiptra skoðana á næsta þingi. Við núverandi aðstæður telur þingflokkur framsóknarmanna því eðlilegt að ákvæði um breytingar á stjórnarskrá sé aðeins breytt eftir að sátt hefur náðst um endurskoðun stjórnarskrárinnar að öðru leyti.“

Það er mikilvægt að sátt ríki um breytingar á stjórnarskrá og það ef menn ætla að breyta ákvæði sem snýr að því að mynda samstöðu. Þetta er ákveðin samstöðutrygging í stjórnarskrá, tryggir að menn leiti eftir því að ná víðtækri samstöðu um breytingar. Breytingar á stjórnarskrá á að vinna með þeim hætti og þá er mjög mikilvægt að halda þessu ákvæði í þeirri mynd sem það er í í núverandi stjórnarskrá.

Í langan tíma höfum við lýst yfir fullum vilja til þess að taka meðal annars auðlindaákvæðið og beint lýðræði til umræðu og reyna að vinna í breiðri sátt að því að ná víðtækri samstöðu um þau mál. Það hefur ekki verið vilji til þess fyrr en núna á síðustu dögum þingsins með nýjum forustumönnum ríkisstjórnarinnar. Eftir forustumannaskipti í ríkisstjórninni varð vilji til þess og þá eru einungis örfáir, fjórir eða fimm, þingdagar eftir af þessu þingi samkvæmt starfsáætlun.

Ég held að það sé mögulegt að ná í gegn auðlindaákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign. Við eigum að stefna að því, það er gríðarlega stórt og mikilvægt mál og við eigum líka að stefna að því að yfir þeim náttúruauðlindum sé þá ekki hægt að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana. Það er grunnurinn í þessum tillögum og við eigum að vinna að því að mynda um þær breiða sátt.