141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:07]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni áðan, það er ekki verið að reyna að búa til stjórnarskrá fyrir ákveðna stjórnmálaflokka, hvorki núverandi stjórnarflokka né stjórnarandstöðuflokka. Þess vegna var þjóðin fengin í málið. Þess vegna voru haldnir þjóðfundir, þess vegna haldin þjóðaratkvæðagreiðsla og skipað stjórnlagaráð. En fyrir hverju er hv. þingmaður að mæla þegar hann mælir fyrir tillögu Framsóknarflokksins um breytingar á auðlindaákvæðum í þessa veru, með leyfi forseta?

„Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara … Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.“

Er það stjórnarskrá Framsóknarflokksins sem er verið að leggja hér fram? Er verið að tryggja óbeinan eignarrétt Framsóknarflokksins og baklands hans, fjárhagslegan sem annan, á þjóðarauðlindum? Ég held að ég hafi sjaldan heyrt Framsóknarflokkinn, þennan hokna, gamla, aldna, spillta stjórnmálaflokk, leggjast eins lágt í umræðunni og einmitt hér í dag.

Ég held að það sé leitun að öðrum eins pólitískum aumingjaskap og hv. þingmenn Framsóknarflokksins leggja fram með tillögum um að nýting á þjóðareignum og þjóðarauðlindum sé óbein einkaeignarréttindi þeirra sem fá að njóta þeirra. Ég hef velt fyrir mér hvers vegna í ósköpunum stjórnmálamönnum á Íslandi dettur í hug að leggja fram slíka tillögu. Hafa menn einhverra hagsmuna að gæta? Geta menn kannski ímyndað sér það í sínum eigin huga að þeir geti kastað eign sinni (Forseti hringir.) á einhverja þá auðlind eða þjóðareign sem þeir sjálfir eru að nýta í dag? Hverra (Forseti hringir.) hagsmuna ganga framsóknarmenn í þessu máli?