141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þingmanni á að Framsóknarflokkurinn er fyllilega tilbúinn til viðræðna um það hvernig auðlindaákvæðinu sé best háttað. Ég hvet hv. þm. Björn Val Gíslason til að hefja þessar samræður við okkur í staðinn fyrir að vera í ræðustól að rífast um þessi mál. Það hefur meðal annars verið tekið mið af því sem hv. þingmaður vitnar hér í, dæmi af beitarréttindum í þjóðlendum sem eiga við um klausuna sem hv. þingmaður vitnaði til.

Annað mál sem er gríðarlega mikilvægt og við viljum að verði tekið inn í þessar tillögur snýr að því að óheimilt sé að framselja ríkisvald vegna auðlinda til alþjóðlegra stofnana. (Gripið fram í: En hvaða tillögur …?) Það er gríðarlega mikilvægt og ég hvet hv. þingmenn núna til að við setjumst yfir þetta auðlindaákvæði. Ég er sannfærður um að hægt er að ná um það breiðri samstöðu en slíkt gerist ekki með því að hv. þingmenn komi í kosningaræður í ræðustól og fari í flokka og menn í staðinn fyrir að ræða málefni.

Eigum við ekki að setjast yfir þetta, hv. þingmaður, og eigum við ekki að leita eftir því að ná samstöðu um þessi mál? Það er þannig sem er mikilvægt að ná fram breytingum á stjórnarskránni og þess vegna er líka mikilvægt að breytingarákvæðið sé þannig að allir geti náð um það samstöðu. Ég er fullviss um að ef vilji er til þess hjá hv. þingmanni getum við náð samstöðu um þessi mál. Það gerist ekki með því að vera í pólitískum leik eins og þessum. Við skulum setjast niður, hv. þingmaður.