141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:11]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef hv. þm. Ásmundur Einar Daðason heldur að ég ætli að setjast niður til að ræða tillögur Framsóknarflokksins er hann á villigötum. Ég ætla að standa hér uppréttur til að berjast gegn þeim. (Gripið fram í: Heyr.) Í tillögum Sjálfstæðisflokksins, jæja, litla Sjálfstæðisflokksins, þ.e. Framsóknarflokksins, og þeim hugmyndum að einkavæða þjóðareignir, einkavæða fiskimiðin, vatnsföllin, jarðvarmann, fiskstofnana, að það myndist af þessu óbeinn eignarréttur. Það á að stjórnarskrárbinda það, þetta er ekki tillaga um lagabreytingu heldur á að negla inn í stjórnarskrá að þannig verði það. Það verður ekki sest niður yfir slíkar tillögur, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason.

Það er önnur tillaga hér til umræðu og hún hljóðar svo, með leyfi forseta.

„Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis.“

Ég skal setjast niður með hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni og þeim framsóknarmönnum öllum til að ræða þetta. Ég skal setjast niður til að ræða þetta við þá — en að afhenda eignarrétt á náttúruauðlindum og þjóðareignum, hvernig í ósköpunum datt framsóknarmönnum slíkt í hug?

Á hvers konar pólitísku fylliríi hafa þeir verið þegar þeir skrifuðu þennan texta og kópíeruðu hann upp úr fornum ritum sem voru til fyrir mörgum árum þegar slík hugsun var kannski á sveimi hjá hægri mönnum á Íslandi og framsóknarmenn hafa gert að sínum í dag? Ætla framsóknarmenn að fara í kosningabaráttu með þetta út á land? Ætlar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason (Forseti hringir.) og hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins að fara í kjördæmi sín og segja: Við ætlum að afhenda eignarrétt á náttúruauðlindum og (Forseti hringir.) þjóðareignum? Verði þeim að góðu. Ég hlakka til að (Forseti hringir.) mæta þeim á þeirri forsendu.