141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:20]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða framgöngu fulltrúa annarra þingflokka í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. En hvað varðar breiða samstöðu í auðlindamálum vil ég vekja athygli hv. þingmanns á því að á árinu 2009, sama ár og hv. þingmaður fór í framboð fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, kröfðumst við þess m.a. að það yrði gert að úrslitaatriði að sett yrði inn í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Hvað gerði Framsóknarflokkurinn á þingi þá? Framsóknarflokkurinn myndaði hér breiða samstöðu ásamt Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Samfylkingunni og Frjálslynda flokknum, formönnum og forustumönnum allra flokka annarra en Sjálfstæðisflokksins. Hvað fólst í þeirri breiðu samstöðu? Horfið var frá ákvæðum sem auðlindanefndin lagði fram á árinu 2000.

Stuðst var við margt í þeirra tillögu en lykilatriðinu sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins koma svo aftur með upp á dekk í dag var að sjálfsögðu sleppt. Hvað var það? Að heimild til afnota eða nýtingar á auðlindum þjóðarinnar nyti verndar sem óbein eignarréttarheimild. Í skýringum auðlindanefndar við það ákvæði segir á blaðsíðu 28 í skýrslu auðlindanefndar, með leyfi forseta:

„Kveðið er á um það í niðurlagi 2. mgr., til þess að taka af allan vafa, að heimild til afnota eða hagnýtingar njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar sem óbein eignarréttindi á borð við hefðbundin leigu-, afnota- og ítaksréttindi.“

Hvað segir í núgildandi stjórnarskrá í 72. gr.? Að eignarrétturinn skuli friðhelgur. Það er það sem Framsóknarflokkurinn kemur með upp á dekk í dag.

Herra forseti. Nei, ég held að Framsóknarflokkurinn ætti að fara út um land og ræða við kjósendur sína um þessa nýju stefnu.