141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:03]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það eru kostir við núverandi fyrirkomulag og þess vegna gerum við flutningsmenn ekki ráð fyrir því að það verði fellt úr gildi. Við gerum ráð fyrir að þessari heimild verði bætt við vegna þess að það er búið að hefja stjórnarskrárendurskoðunarferli og við teljum eðlilegt að þjóðin fái að leiða það til lykta og að við finnum farveg til þess.

Markmiðið hlýtur alltaf að vera að mikil þátttaka verði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þátttökuþröskuldarnir eru náttúrlega hannaðir til þess að gera það erfiðara að breyta stjórnarskrám og þeir geta komið ríkjum í hreina sjálfheldu hvað það varðar eins og mörg dæmi eru um. Það var auðvitað líka þannig, við upplifðum það fyrir ári síðan, þegar hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru hér í málþófi til að koma í veg fyrir að við gætum til dæmis haft þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána samhliða forsetakosningu, þar sem ásetningur stjórnarmeirihlutans var að tryggja mikla þátttöku. Þá var (Forseti hringir.) það afstaða þingmanna Sjálfstæðisflokksins að koma í veg fyrir að mögulegt væri að tryggja mikla þátttöku í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu.