141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:07]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað markmið okkar flutningsmanna að finna leiðir til þess að rjúfa það þrátefli sem þetta mál er komið í, stjórnarskrármálið almennt séð. Ég ætla bara að segja um það sem hv. þingmaður nefnir, um orðaskipti hér fyrr í dag, að við semjum ekki um efnisatriði tillagna í ræðustól Alþingis og eigum ekki að gera okkur væntingar um það. Samræðurnar þurfa að fara fram annars staðar og kannski er best að við setjumst yfir það hvaða svigrúm er hægt að finna í því efni.

Ég hef hrifist af ályktunum flokksþings Framsóknarflokksins. Þar er til dæmis rakið eftir nýafstaðið flokksþing Framsóknarflokksins að mikilvægt sé að stjórnskipunarumbótaferlið sem hafið er haldi áfram og verði lokið á næsta þingi. Þær tillögur sem hér liggja fyrir um breytingu á stjórnarskrá og þingsályktunartillagan fela í sér farsæla umgjörð um það. Ef hv. þingmaður hefur aðrar hugmyndir, eða framsóknarmenn, um það hvernig ná megi hinu göfuga markmiði flokksþings Framsóknarflokksins sem ég held að við flutningsmenn þessa máls deilum, þ.e. að tillögur stjórnlagaráðs og það frumvarp sem byggir á þeim fái lifað yfir á næsta kjörtímabil, þá erum við til viðræðu um aðrar útfærslur á því. Markmið okkar er að tryggja farsæla umgjörð um það, sem og samstöðu um þær efnislegu breytingar sem við gætum náð saman um. Við munum örugglega togast eitthvað á um efnisinntak þess miðað við það útspil sem framsóknarmenn settu fram í dag því að það er aðeins frábrugðið því sem við horfum til enda er dálítill munur á útspili framsóknarmanna og hugmyndunum frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það er bara eðli þeirra samningaviðræðna sem fram undan eru. (Forseti hringir.) Við þurfum að setjast yfir það og finna hvaða grunn við getum fundið til að ná saman og ef ekki, hvar okkur greinir á.