141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins til að segja að hvað mína afstöðu snertir er ég tilbúin til að koma til móts við það sjónarmið hv. þingmanns ef af verður og hann stendur við að ekki verði um bráðabirgðaákvæði að ræða heldur verði sú tillaga samþykkt sem slík inn í stjórnarskrá án slíkra fyrirvara sem er kveðið á um hér, að það gildi fram til 30. apríl 2017. Eins og hv. þingmaður sagði er eðlilegt að menn komi með tillögu um hvernig þeir vilja hafa það til frambúðar og mín afstaða er að þetta sé rétt leið.

Ég hef verið að kynna mér afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessara mála. Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram breytingartillögur við stjórnarskipunarlög vorið 2009 hvað varðar breytingu á stjórnarskrá. Það er bitamunur en ekki fjár á þeim tillögum sem flokkurinn lagði fram þá og þeim sem liggja fyrir. Að vísu gerði Sjálfstæðisflokkurinn kröfu um að það yrði rætt við fjórar umræður en ekki þrjár og að þrjár vikur liðu á milli umræðna en engin slík skilyrði eru í því frumvarpi sem liggur fyrir. Það er heldur ekki svo mikill munur á því hvort það eru 2/3 þingmanna eða 3/5 þingmanna. Þetta er spurning um hvort 22 eða 26 þingmenn geti stöðvað eða komið í veg fyrir að mál fari til þjóðarinnar. Það eina sem verulega munar um er óbeina skilyrðið sem var sett þá um að 25% á kjörskrá yrðu að samþykkja þótt um einfaldan meiri hluta væri að ræða.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé mér sammála um að munurinn sé ekki svo mikill í reynd (Forseti hringir.) á því sem flokkurinn lagði fram 2009 og því ákvæði sem er um að ræða og er óbreytt 114. gr. í tillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem liggja fyrir.