141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ákveðinn munur, segir hv. þingmaður, en mér heyrist hann samt vera að bakka aðeins frá þeim tillögum sem voru lagðar fram þarna.

Ég verð að segja að við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfum, eins og hv. þingmaður veit, kynnt okkur mjög vel hvernig menn líta á slíka þröskulda um þátttöku, þ.e. að menn greiði atkvæði með því að fara ekki á kjörstað. Við þurfum í rauninni ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því hér á landi. Það er almennt mjög mikil þátttaka og meiri þátttaka í atkvæðagreiðslum hér. Í síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu sem var 20. október síðastliðinn greiddu til að mynda 116 þús. manns atkvæði sem var um helmingur manna á kjörskrá. Það voru 67% sem studdu fyrstu tillögurnar um stjórnarskrána.

Samkvæmt mínum útreikningi á kröfunni um 25% á kjörskrá og einfaldan meiri hluta þegar aftur á móti er lagt til hér að það séu 3/5 kjósenda munar nú ansi litlu. Mér sýnist, ef útreikningar mínir við borðið eru réttir, að krafan sem er sett fram um einfaldan meiri hluta geri ráð fyrir að 118 þús. manns hefðu greitt atkvæði síðastliðið haust, þeir voru 116 þús. Enn segi ég: Þarna er bitamunur en ekki fjár, hv. þingmaður. Menn eiga ekki að gera svona mikið úr ágreiningi eins og mér finnst hv. þingmaður vera að gera. Tillögurnar liggja býsna nærri hvor annarri.