141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það eru miklar sviptingar í þessu máli eins og í mörgum öðrum og í störfum þingsins. Fyrir tveimur dögum eða svo vorum við að ræða í alvöru að samþykkja eitt stykki nýja stjórnarskrá, keyrt var á það á fullu að við ættum að gefa íslensku þjóðinni nýja stjórnarskrá. Þegar þetta mál fór í gang var það gert með mjög skemmtilegum hætti og hefur vakið athygli víða um heim, til dæmis þegar fulltrúar á þjóðfundi voru valdir af handahófi úr þjóðskrá. Þjóðfundarfulltrúar ræddu um stjórnarskrá og kom fram mikið af hugmyndum, en þær voru því miður sundurlausar. Ég held að inn í það dæmi hafi vantað að þeir sem hefðu á því áhuga lýstu fyrst yfir vilja til að taka þátt í starfinu, svo yrði dregið úr þeim hópi. Þá hefði komið til sögunnar fólk sem hefði áhuga og jafnvel þekkingu á stjórnarskrám. Þá hefði verið miklu minni hópur sem hefði verið dregið úr, en starfið kannski orðið markvissara og ekki bara einhver orðaflaumur, sannleikur, heiðarleiki og svo framvegis, sem í rauninni sagði ekkert voðalega mikið um stjórnarskrána. Engu að síður var þetta mjög athyglisverð tilraun.

Síðan var kosið til stjórnlagaráðs og þar var líka sama sagan. Eiginlega var útilokað að kjósa á milli 500 aðila sem ekkert höfðu gefið út um hvernig þeir ætluðu sér að breyta stjórnarskránni eða hvaða skoðanir þeir hefðu á stjórnarskrám. Ég lenti í miklum vandræðum þegar ég var búinn að fara í gegnum 200 manns, þá sauð yfir á mér þannig að allir þeir sem komu á eftir voru ekki inni í myndinni.

Síðan kemur þetta stjórnlagaráð. Við þekkjum þá sögu. Hún er ein allsherjarhörmungarsaga, öll framkvæmdin og allt sem gert var í sambandi við stjórnlagaráðið. Samt komu fram ágætistillögur sem stjórnlagaráð birti Alþingi í júlí 2011. Þær voru svo lagðar fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til vinnslu. Ég skrifaði þeirri nefnd geysilega mikla umsögn. Mjög óvenjulegt er að þingmenn skrifi umsagnir um mál til nefnda þingsins. Ég sýndi þessum tillögum þá virðingu að ég fór í gegnum hverja einustu og lét hana óhreyfða ef hún var góð, en gerði athugasemdir við hana og jafnvel lagði til að hún yrði felld niður ef hún var að mínu mati slæm. Ég held að það hafi verið voða lítið gert með þessa umsögn mína, því miður.

Ég gerði til dæmis athugasemd við það, frú forseti, að mjög víða er vísað til þess að Alþingi geri eitthvað. Ég hef nefnt það sem dæmi: Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Þetta var tillaga hjá stjórnlagaráði. Þarna gerir stjórnarskráin ráð fyrir því að Alþingi verði virkt, annars virkar þetta ákvæði ekki. Til dæmis ef Hæstiréttur ætti að dæma um það hvort ákveðin lög standist þetta ákvæði og það er ekki búið að setja lög á Alþingi um vernd og umönnun barna þá stendur ekki neitt. Hæstiréttur getur ekki sagt hvort þau standist stjórnarskrá eða ekki. Það hefði verið miklu betra að segja bara: Börn eiga rétt á umönnun og vernd. Eða framfærslu og vernd. Það var sú tillaga sem ég gerði til eftirlits- og stjórnskipunarnefndar, en hún var ekki tekin upp og það var ekki einu sinni sagt að hugmynd mín væri slæm. Ég er ekki að segja að þær tillögur sem ég geri séu endilega hið eina sanna, en ef menn hafna þeim vil ég að það sé gert með rökum. Það var ekki gert, þeim var ekki hafnað með rökum, enda held ég að það séu vandséð þau rök sem segja að verra sé að segja beint og ákveðið í stjórnarskrá hvað eigi að gera en að vísa í og segja að það skuli tryggt með lögum.

Það var mjög margt gott í þessum tillögum, annað var slæmt og sumt hefði mátt laga auðveldlega, eins og þetta litla atriði sem ég nefndi, en það var ekki gert.

Eitt af því sem ég hef haft mikinn áhuga á er það hvernig stjórnarskrá er breytt. Núgildandi stjórnarskrá gerir ráð fyrir því að hið háa Alþingi Íslendinga sé stjórnarskrárgjafinn, að það sé um leið stjórnlagaþing. Þess vegna var dálítið athyglisvert þegar Alþingi ætlaði að fara að framselja það vald til stjórnlagaráðs með einhverjum hætti. Það er í rauninni ekki hægt. Það er ekki hægt að búa til stjórnlagaþing annars staðar því Alþingi er stjórnlagaþing. Þar er gert ráð fyrir því að Alþingi þurfi að samþykkja ákveðna breytingu, síðan verði kosningar og nýtt þing þurfi að samþykkja aftur. Tvö Alþingi í röð þurfa sem sagt að samþykkja ákveðnar breytingar á stjórnarskrá, þá verða þær virkar.

Þetta er ein aðferð, að láta fulltrúalýðræðið, fulltrúa þjóðarinnar, gera breytingar á stjórnarskránni.

Ég er hlynntari því að það sé beint lýðræði. Ég er þannig gerður, frú forseti, að ég treysti fólki ansi vel til þess að gera breytingar. Þess vegna hef ég lagt fram ásamt mörgum öðrum þingmönnum tillögu sem ekki hefur fengist rædd í nefndinni um að breytingarnar skuli bera upp á Alþingi og þá þurfi 40 þingmenn, nærri 2/3, að samþykkja og svo þurfi þær að fara til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem helmingur allra kosningarbærra manna greiði atkvæði um það. Þá fyrst er hægt að segja það sé helmingur þjóðarinnar sem hafi samþykkt viðkomandi breytingu.

Nú hafa menn gagnrýnt það að þessi aðferð geri kröfu um mikla þátttöku. Ef gengur erfiðlega að fá þátttöku í kosningum um stjórnarskrá erum við í rauninni að segja að beint lýðræði virki ekki til þess að breyta stjórnarskrá. Ef menn hafa þá skoðun að ekki sé hægt að ná fram nægilega mikilli þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá, ættu menn hreinlega að vera áfram með fulltrúalýðræði sem við erum með í dag, vera með Alþingi sem breytir þessu tvö þing í röð. Þá greiðir þjóðin hins vegar aldrei atkvæði um stjórnarskrána sína. Ég setti mest út á í þessari nýju stjórnarskrá sem hér var birt að hún gerir ráð fyrir því að þjóðin greiði aldrei atkvæði um hana með bindandi hætti. Það er Alþingi hið gamla og hið nýja sem samþykkir breytingarnar, en þjóðin getur aldrei greitt um þær atkvæði með bindandi hætti, eins og stjórnarskráin er uppbyggð í dag.

Þess vegna vildi ég breyta eingöngu þessu eina ákvæði um 79. gr., eins og nú liggur fyrir í þeirri tillögu sem um er að ræða frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna og Guðmundi Steingrímssyni, formanni Bjartrar framtíðar. Þau gera þetta ekki varanlegt. Það finnst mér mjög skrýtið, þau gera breytingar á stjórnarskránni sem eiga bara að vera í gildi í fjögur ár, eitt kjörtímabil. Ég skil ekki svoleiðis breytingar.

Flutningsmaður sagði að þetta hefði verið borið undir formenn annarra stjórnmálaflokka. Ekki fékk ég svar við því hvort þeir hefðu mátt gera breytingar á þessu, en hann var nokkuð opinn fyrir því að gerðar yrðu breytingar. Því legg ég til að sú nefnd sem fær frumvarpið skoði það að breyta þessu ákvæði, jafnvel í varanlegt ákvæði, og fái um það breiðari samstöðu. Það er eiginlega ekki hægt að menn séu að breyta stjórnarskránni með svona lítilli samstöðu, að bara þrír flokkar standi að því og aðrir flokkar ekki. Ég hefði viljað að menn settust niður og reyndu að finna á þessu sameiginlegan flöt. Það gefst örugglega tækifæri til þess á næstu örfáu dögum.

Ég hefði viljað hafa þarna varanlegt ákvæði. Ég skil ekki af hverju menn eru með bráðabirgðaákvæði. Ég hefði líka viljað að þröskuldarnir yrðu hærri, annaðhvort treysta menn beinu lýðræði eða ekki. Mér finnst alveg fráleitt þegar menn segja að menn geti kosið með því að mæta ekki á kjörstað. Fyrir mér er maður sem ekki mætir á kjörstað maður sem hefur ekki áhuga á málaflokknum. Hafi hann áhuga á málinu, annaðhvort að vera á móti því eða með því, mætir hann að sjálfsögðu á kjörstað og nýtir sinn atkvæðisrétt.

Það er fráleitt að ætla sér að kjósa með því að mæta ekki því þá koma sjónarmið viðkomandi alls ekki fram og menn vita ekki hvort hann mætir ekki vegna þess að hann sé áhugalaus um stjórnmál yfirleitt og stjórnarskrá og allt það, eða hvort hann sé á móti málinu eða með því. Ég mundi vilja að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar sveigi þetta meira að þeirri tillögu sem ég hef flutt ásamt 16 öðrum hv. þingmönnum og lækki hugsanlega þröskuldana ef mönnum sýnast þeir vera háir. Það getur vel verið að 45% kjósenda sé kannski þröskuldur sem sé nær sanni. Það er jafnvel hægt að fara niður í 40% ef mönnum sýnist svo, en mér lýst mjög illa á að 2/3 þeirra sem greiða atkvæði geti ákveðið nýja stjórnarskrá.

Eins og ég fór í gegnum í andsvari getur það þýtt að ef 40% kosningaþátttaka er í slíkri kosningu er nóg að 24% eða 1/4 kjósenda segi já. Ég mundi segja að slík stjórnarskrá geti varla verið stjórnarskrá allrar þjóðarinnar, þegar fjórði hver kjósandi hefur léð henni samþykki.

Ég mundi vilja að nefndin skoðaði málið mikið betur. Ef menn trúa að beint lýðræði eigi rétt á sér ættu menn þá að taka það skref að segja að 40% kjósenda skuli greiða málinu atkvæði sitt svo það sé gild breyting, eða 45% eða annað sem menn ákveða. Vandinn er sá að eftir því sem þessir þröskuldar eru lægri þeim mun oftar verður stjórnarskránni breytt, það verður jafnvel hættulega auðvelt að breyta henni. Þeir flokkar sem eru minni ættu sérstaklega að varast að gefa stærri flokkunum þetta vald til að breyta stjórnarskránni með auðveldum hætti.

Sú tillaga sem við ræðum hér um að 2/3 þingmanna dugi, það samþykki gæti vel verið stjórnarmeirihluti hér á Alþingi sem ákveður einhverjar breytingar. Eins og ég nefndi geta ungliðahreyfingar flokkanna farið í gang og smalað á kjörstað við einhver mál sem lítill áhugi er fyrir og náð fram 2/3 þeirra sem greiða atkvæði, sérstaklega ef málið er lítið.

Kostur þessarar tillögu er sá að ef þetta verður samþykkt greiðir þjóðin þó alla vega bindandi atkvæði um stjórnarskrána ef lögð yrði fram ný stjórnarskrá eða veigamiklar breytingar.

Í kjölfar þessa máls og þessarar kúvendingar hefur komið fram vantraust á ríkisstjórnina sem verður væntanlega rætt fljótlega. Ég vil að menn íhugi mjög alvarlega hvað gerist ef það er samþykkt og þing er rofið með stjórnarskrárbreytingar í framtíðinni. Erum við þá búin að missa af þeirri lest að geta samþykkt þessar eða aðrar breytingar á stjórnarskránni, sem er að leyfa að þjóðin greiði atkvæði hvenær sem er innan kjörtímabilsins? Eða þurfum við að fara í gamla ferilinn aftur? Hann fólst í því að stjórnarskrárbreytingar voru alltaf síðasta málið sem var afgreitt frá Alþingi fyrir kosningar. Það þýðir að allar breytingar mundu frestast um fjögur ár.