141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það kom ágætlega fram í dag hvernig þetta mál ber að og yfirlýsingar komu um að það sé til þess fallið að höggva á hnúta sem eru greinilega á þingstörfunum. Það er athyglisvert að það mál sem stjórnarmeirihlutinn og stuðningsflokkur þeirra, Björt framtíð, leggja mesta áherslu á að klára sé stjórnarskrármálið. Maður hefði haldið að forgangsröðunin væri önnur en þessi þegar kæmi að þeim vandamálum og lausnum sem finna þarf hér á landi til þess að bæta stöðu heimila og fyrirtækja. Nei, þá er allur tíminn látinn fara í stjórnarskrármálið. Nú er komin fram frumvarp um hvernig hægt sé að breyta stjórnarskránni til bráðabirgða, ef það má orða það þannig, í það minnsta opna fyrir að með ákveðnum ákvæðum sé hægt að breyta stjórnarskrá aftur eftir kosningar. Það er augljóslega markmiðið með frumvarpinu að auðvelda það. Það kom fram í dag. Ég er ekki sérstaklega hrifinn af því. Ég held að það fyrirkomulag sem er í dag sé ágætt og hef ekki heyrt nein góð rök fyrir öðru enn sem komið er.

Hins vegar er mikilvægt, eins og margir hafa sagt, að menn geri sér grein fyrir því að því ferli sem verið hefur í gangi nokkuð mörg ár, ekki bara þetta kjörtímabil heldur nokkuð lengur, varðandi það að gera ákveðnar breytingar á stjórnarskránni, þarf ekki að ljúka 15. mars þegar þingið lætur af störfum, heldur er hægt að vinna áfram að breytingum á stjórnarskránni. Það verður að mínu viti ekki gert með því að binda hendur manna á næsta þingi með einhverjum hætti, en það er hins vegar alveg sjálfsagt, og eins og við framsóknarmenn lýstum yfir á flokksþingi okkar, að vinna áfram að þeim breytingum á stjórnarskránni sem menn koma sér saman um.

Við höfum fyrir löngu lagt til að þingið setjist yfir ákveðnar greinar eða kafla og reyni að átta sig á þeim og ná samkomulagi um þá. Því miður hefur það ekki gengið eftir og ekki hefur verið á það hlustað. Reyndar hafa sum okkar sem hér hafa staðið varað við ferlinu öllu í mjög langan tíma, í tvö, þrjú ár. Og það er ekki ánægjulegt að líta til baka og átta sig á því að það hefur allt saman reynst rétt, vegna þess að tíma og fjármunum hefur verið mjög illa varið, svo ég segi það nú.

Það útspil sem hér er til umræðu, tillaga um að bæta við ákvæðum um stundarsakir, kann að koma fram of seint. Mér skilst nú að hv. þingmaður og formaður Vinstri grænna sé á mælendaskrá á eftir en ég held að ástæða sé til að óska eftir því að formaður Bjartrar framtíðar skýri líka frá skoðun sinni á málinu þar sem sá ágæti þingmaður er nú flutningsmaður að málinu. Ljóst er að tillagan er um að auðvelda breytingar á stjórnarskrá þó svo að fyrir því sé reynt að færa rök að það sé samt sem áður býsna erfitt.

Ég nefni strax að það er alveg óhætt að setja spurningarmerki við það að ekki sé gerð krafa um lágmarksþátttöku í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu heldur virðist vera sem nokkur þúsund eða tugþúsund manna geti ákveðið að breyta stjórnarskrá ef afgangurinn af kosningarbærum mönnum hefur engan sérstakan áhuga á því.

Það má því líka velta því fyrir sér hvort búið sé að snúa lýðræðinu á hvolf eða er það eitthvað lýðræðislegra að fara þá leið en að draga fólk á kjörstað? Fólk getur í raun sýnt hug sinn með því að mæta ekki. Það eru allt spurningar sem er að mínu viti verðugt að velta upp og ræða.

Ég lít þannig á að tillagan sé lögð fram til umræðu, til að menn geti velt henni fyrir sér. Það var eins með þá tillögu sem framsóknarmenn lögðu fram í dag, hún er hugsuð til að reyna að miðla málum og höggva á hnútinn varðandi auðlindaákvæðið. Henni var að sjálfsögðu tekið misvel og reyndar var með ólíkindum hvernig þingmenn Vinstri grænna tóku þeirri tillögu. Það verður að segjast eins og er að það er undarlegt að sjá menn í ábyrgðarstöðum þar koma í þennan stól og fara með slíkt mál sem þeir gerðu. Það sýnir að slíkur málflutningur og slíkir þingmenn eru ekki trúverðugir.

Þegar við ræðum stjórnarskrána og t.d. náttúruauðlindir eða einhvers konar breytingar á náttúrunni er mikilvægt að hafa í huga hvernig menn hafa nálgast dómaframkvæmd varðandi eignarrétt og annað. Um er að ræða marga hluti eða mörg mál. Það er ekki bara sjávarútvegur. Það er að sjálfsögðu líka orka og aðgangur að landi. Beitarlönd, heiðar og slíkt eru í þessu ákvæði. Menn þurfa að hafa það í huga.

Það er líka mikilvægt, og ég legg þunga áherslu á það, að í þeirri tillögu sem við lögðum fram í dag er talað um að ekki megi framselja náttúruauðlindir í hendur erlendra ríkja eða ríkjasambanda og þess háttar. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að auðlindaákvæðið verndi og haldi auðlindunum í eigu og umsjá íslensku þjóðarinnar hvernig svo sem menn skilgreina það lagatæknilega. Ég held að sú tillaga sem við lögðum fram sé ágætt veganesti í þá vegferð.

Í greinargerð með frumvarpinu stendur að það sé flutt í þeim tilgangi að ná sem víðtækastri sátt á Alþingi um framhald og lyktir á þeirri víðtæku endurskoðun sem staðið hefur undanfarin ár. Við hljótum að sjálfsögðu að taka því sem slíku. Eins og ég sagði í andsvari við 1. flutningsmann frumvarpsins, hv. þm. Árna Pál Árnason, þá velti ég fyrir mér hvort sá tónn sem var hér í gær sé farinn að gleymast þar sem sáttarhugurinn kom ekki fram í ræðum þingmanna stjórnarflokkanna í dag. Það mun nú væntanlega koma í ljós innan tíðar.

Annað þingmál sem fylgir þessu, sem við ræðum síðar, gerir ráð fyrir frekari breytingum, en það er að einhverju leyti sama marki brennt og það sem ég ræði hér.

Ég velti fyrir mér hvort skynsamlegt sé að fara fram með mál þar sem gert er ráð fyrir að breyta stjórnarskránni um stundarsakir. Það ber að sjálfsögðu vott um einhvers konar nauðvörn eða neyðaróp til að reyna að koma málinu í einhvern farveg svo hægt sé að klára það. Við sjáum að sama skapi að það er mjög flókinn og dreifður stuðningur við einstakar breytingar á stjórnarskránni, bæði innan stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar.

Það er líka mikilvægt að þingmenn gefi sér góðan tíma til þess að fara yfir málið, athuga hvaða breytingar það hefur, hvort það gangi upp í tímaröð og hvort þeir frestir sem þarna er talað um séu eðlilegir og nægir.

Frú forseti. Hér segir, með leyfi forseta:

„Samþykki Alþingi frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með minnst 3/5 hlutum greiddra atkvæða skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“

Um 60% þingmanna þurfa að samþykkja breytinguna. Það má að sjálfsögðu velta því fyrir sér að sú staða getur vitanlega komið upp að í þinginu sé á einhverjum tímapunkti mjög ríflegur meiri hluti. Ég segi það þó svo að hér sé talað um að þetta sé tímabundið ákvæði. Í tillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er það ekki tímabundið heldur er það lagt fram sem framtíðartillaga. Það má líka velta því fyrir sér hvort rúmur meiri hluti, sem er hugsanlega með 60% þingmanna, geti dundað sér við að breyta stjórnarskránni og reynt svo að tryggja að fylgismenn meiri hlutans mæti á kjörstað og tryggi málið þar áfram vegna þess að ekki er gerð krafa um lágmarksþátttöku í kosningunni.

Hér stendur, með leyfi forseta:

„Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi sex mánuðum og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.“

Ég hef ekki reyndar séð þau rök sem búa að baki þessum tímasetningum og væri gott að fá frekari skýringar á þeim á eftir.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Sé frumvarpið samþykkt með 3/5 hlutum greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni skal það staðfest af forseta Íslands innan tveggja vikna og telst þá gild stjórnarskipunarlög.“

Skal það staðfest af forseta Íslands innan tveggja vikna? Þýðir það að þeir sem leggja það til, þingið, segi að forseta Íslands sé skylt að samþykkja málið? Væntanlega er það hugmyndin. Þá eru menn að sjálfsögðu farnir að taka krók fram hjá málskotsréttinum, alla vega eins og ég skil það. Það vantar frekari skýringar á hugsuninni þar að baki.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Í heiti frumvarps til stjórnarskipunarlaga á þessum grundvelli skal koma fram tilvísun til ákvæðis þessa.“

Þeir sem standa að málinu hafa sagt að þetta sé til þess fallið að auðvelda málin en um leið sé það ekki gert of auðvelt að breyta stjórnarskránni. Ég ítreka það sem ég sagði áðan; ég tel varhugavert að fara þessa leið. Ég held að farsælast sé að halda vinnunni áfram á næsta kjörtímabili. Það á ekki að vera með neinn flumbrugang við að breyta stjórnarskrá landsins. Því miður tel ég að svo hafi verið í þessu máli. Þar af leiðandi tel ég mikilvægt að menn vandi sig við hvert skref í framtíðinni.

Það hefur í raun enginn bent á eða rökstutt hvers vegna mikilvægt sé að klára allt málið. Menn hafa viðrað grundvallaratriði sem þeir segja að þurfi að breyta og hafa tekist síðan á um þau í gegnum árin, líka á þessu kjörtímabili. Ef maður dregur það saman skiptir auðlindaákvæðið flesta máli, einnig ákveðnir þættir varðandi beina lýðræðið. Síðan hefur vitanlega einhver hópur þingmanna eða þá smærri hópar manna aðra skoðun á málinu.

Frú forseti. Málið kemur hér inn með afbrigðum í dag og er ætlunin að það fari til nefndar í kvöld eða nótt. Eðlilegt er að gera þá kröfu að nefndin fari vandlega yfir málið og kalli til sín þá sérfræðinga sem gefið hafa álit sitt á málinu og teljast vera sérfræðingar í því.

Eins og fram kemur hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur í áliti 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og ég tek undir það, hefur íslensk stjórnskipan staðist ágætlega þau áföll sem dunið hafa á okkur undanfarið. Ljóst er að þegar á reyndi stóð stjórnskipunin fullkomlega að mínu viti í málum eins og Icesave, svo eitthvað sé nefnt. Þá er líka komin fram skýr og dómaframkvæmd varðandi borgarana eins og fram kemur í nefndarálitinu, þannig að reynslan af stjórnarskránni eins og hún er í dag er í raun ágæt.

Hvað verður um málið og hver niðurstaðan verður er ómögulegt að segja á þessu stigi. Málið fer vitanlega til nefndar og verður rætt þar. Ég geri að sjálfsögðu, eins og vonandi allir þingmenn, kröfu um að þar fái málið eðlilega og vandaða meðferð en verði ekki rifið út með töngum eins og algengt hefur verið á þessu kjörtímabili.