141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[19:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Með því frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem við ræðum hér er í raun og veru bundinn endi á langt ferli á þessu kjörtímabili sem hófst fyrir fjórum árum og laut að því að leggja af stað í heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Nú má segja að það sé óvarlegt að standa hér og lýsa því yfir hver örlög málsins verða á næsta kjörtímabili en í það minnsta er ljóst að á þessu kjörtímabili stendur ekki til að halda áfram vinnu við heildarendurskoðunina.

Það frumvarp sem við ræðum hér um breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar verður að skoða með hliðsjón af tillögu til þingsályktunar sem samhliða var lögð fram. Þar er lagt til að málið í heild sinni haldi áfram á sömu forsendum og það liggur núna fyrir hjá meiri hluta þessa þings.

Ég verð að segja að formlega séð hlýtur það að hafa tiltölulega litla þýðingu að þetta þing kveði á um meðferð málsins á næsta þingi með þingsályktun. Engu að síður birtist í þingsályktunartillögunni ákveðin sýn á það hvert framhald málsins eigi að vera á næsta þingi. Það er þó ljóst að í þinginu, allt frá því að tillögur stjórnlagaráðs voru afhentar eftir mitt ár 2011, hefur ekki verið sameiginleg sýn á það hjá stjórn og stjórnarandstöðu hvernig ætti að vinna það mál áfram.

Ég nefni þetta vegna þess að það hefur þýðingu í samhengi við frumvarpið um að breyta 79. gr. Þar er lagt til að í stað þeirrar reglu sem gildir í dag um að stjórnarskrá verði ekki breytt nema að tvö þing komi þar að gildi sú regla um stundarsakir, á næsta kjörtímabili, næstu fjögur árin eftir kosningar, að náist 60% stuðningur við breytingar á stjórnarskránni þurfi ekki að ganga til kosninga heldur verði farið beint í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem farið er fram á 60% stuðning kjósenda, þeirra sem taka þátt.

Ef við horfum nokkur ár aftur í tímann er auðvelt að finna dæmi þess að undir lok þings hafi komið fram tillaga sem er efnislega samhljóma þessari. Það hefur gerst að minnsta kosti í tvígang; fyrir kosningarnar 2007 og einnig fyrir kosningarnar sem fóru fram 2009 að komið hefur fram tillaga undir lok þingstarfa um að auðvelda stjórnarskrárbreytingar á næsta þingi. Síðustu tvö skipti sem gerð var tillaga um þetta náði hún ekki fram að ganga. Hér er komin fram tillaga í þriðja sinn og þetta er þriðja útgáfan af breytingu á breytingarákvæðinu. Þetta er þriðja útgáfan sem kemur frá árinu 2007 til þingsins um það hvernig við gætum mögulega breytt breytingarákvæðinu. Í síðustu útgáfunni var talað um ákveðna þátttökuþröskulda og í þeirri útgáfu sem var uppi á árinu 2007 — og það er best að taka það fram að ég þori ekki að fullyrða hvort hún kom fram í þingmáli árið 2007, en hún hafði birst í áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar — var að finna þriðju útfærsluna.

Það sem skilur þessa tillögu frá hinum fyrri eru hinar ytri aðstæður. Með því er ég að vísa til þess að á árinu 2007 var almennt gengið út frá því að menn mundu ekki fara fram með hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni, hvað þá heildarendurskoðun á henni, án þess að það væri unnið í breiðri sátt á þinginu, ólíkt því sem nú er. Nú horfir svo við að við höfum ekki bara allt þetta kjörtímabil til vitnis um að horfið hefur verið frá þeirri aðferðafræði og tekin upp sú nálgun að málinu er í raun og veru útvistað frá þinginu og meiri hlutinn í þinginu hefur litið svo á að hann væri skuldbundinn til að fylgja þeirri niðurstöðu sem birtist í tillögu stjórnlagaráðsins heldur hefur öllum ábendingum frá stjórnarandstöðunni eða þeim flokkum sem hafa haft uppi athugasemdir — þá er ég einkum að vísa til Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins — verið vísað nær samstundis til föðurhúsanna.

Sama gildir um athugasemdir sem borist hafa frá fræðimönnum, þeim sem hafa fengið málið til umsagnar. Það gekk meira að segja svo langt að athugasemdum lögfræðinganefndar sem hafði fengið tillögur stjórnlagaráðs til yfirlestrar, eingöngu til þess að gera á þeim nauðsynlegar lagatæknilegar lagfæringar, var líka vísað frá í nefndum þingsins. Jafnvel þótt málið væri í upphafi lagt fram þannig að tekið hafði verið tillit til athugasemda lögfræðinganna sem lesið höfðu málið yfir tók meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sig til og vatt ofan af athugasemdum lögfræðinganna sem þó höfðu verið fengnir sérstaklega til að lesa málið yfir.

Þetta tek ég saman og bendi á vegna þess að það er í þessu andrúmslofti, við þessar nýju aðstæður, átakaaðstæður sem hafa myndast á undanförnum árum, sem nú er lagt til að við gerum það léttara og greiðara að breyta stjórnarskránni. Það tel ég mjög varhugavert. Ég vil taka strax fram að að mínum dómi kemur alls ekki til álita að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar þannig að auðveldara verði í framhaldinu að breyta stjórnarskránni. Það á alveg sérstaklega við við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Með þessu er ég ekki að vísa frá öllum hugmyndum sem upp kunna að koma eftir að málið ratar til nefndar, en mér finnst mjög mikilvægt að þetta komi fram strax við 1. umr. Ég set þetta í beint samhengi við þá tillögu til þingsályktunar sem liggur fyrir þinginu. Það er rétt að lesa örstutt upp úr þeirri þingsályktunartillögu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Alþingi samþykkir að kjósa á yfirstandandi þingi fimm manna stjórnarskrárnefnd sem fái það hlutverk að vinna að farsælli niðurstöðu málsins á næsta kjörtímabili. Vinna nefndarinnar grundvallist á tillögum stjórnlagaráðs og miði að því að útfæra nánar frumvarp það til nýrrar stjórnarskrár sem nú liggur fyrir þinginu. Þá verði jafnframt hafðar til hliðsjónar þær breytingartillögur sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram. Nefndin skili stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tillögum sínum fyrir 1. október 2013 og stefnt verði að því að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið á sjötíu ára afmæli lýðveldisins árið 2014.“

Eins og sjá má er eins og vilji þeirra sem eiga aðild að málinu standi til þess að láta eins og ekki sé komið að lokum kjörtímabilsins og að sérstök ályktun verði samþykkt í þinginu þar sem horft er fram hjá því að kosningar eru fram undan og að það kunni að breytast hvað meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kunni að telja rétt, sanngjarnt og eðlilegt, og eftir atvikum vönduð og góð lagasetning í framhaldinu. Þetta gengur að sjálfsögðu ekki upp, það sjá allir. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að nýr meiri hluti kann að hafa nýja sýn á það hvernig eigi að fara með málið. Það breytir því þó ekki að vilji er hjá öllum þingflokkum á Alþingi til að halda vinnunni áfram.

Efnislegur ágreiningur hefur verið um ýmis atriði; um auðlindaákvæðið og hvernig eigi að orða það, á hvern hátt við getum tekið upp möguleikann á þjóðaratkvæðagreiðslum, hvernig ýmis önnur atriði stjórnarskrárinnar verði endurskoðuð, sérstaklega samskipti valdhafanna og hvernig mörk þriggja þátta valdsins eigi að liggja, framkvæmdarvaldsins, löggjafarvaldsins og dómsvaldsins, og ýmislegt sem snýr að aðskilnaði þings og ríkisstjórnar eða framkvæmdarvaldsins. Að mínu mati hefur umræðan ekki verið tæmd um allt þetta og full ástæða til að halda áfram að ræða það á nýju kjörtímabili. Það þýðir hins vegar ekki að það sé sjálfgefið að við tökum upp þráðinn einmitt þar sem frá var horfið í starfi meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Því miður hefur verið haldið þannig á málinu í þeirri ágætu nefnd að í raun og veru hefur ekki verið markmiðið í mjög langan tíma að eiga samstarf við minni hlutann. Hún hefur hreinlega verið rekin áfram sem klofin nefnd þar sem meiri hlutinn hefur farið sínar eigin leiðir, varla haft fyrir því að boða fundi áður en send eru út erindi og nefndarálit ekki einu sinni kynnt fyrir minni hlutanum áður en þau eru frágengin og afgreidd til þingsins. Það hefur reyndar verið markmiðið hjá þeim sem þar hafa ráðið för að ljúka heildarendurskoðuninni á þessu kjörtímabili. Þeir hafa þráast við, ekki hlustað á aðvörunarorð og þess vegna erum við komin í þá stöðu sem blasir við í þingmálunum fyrir framan okkur.

Ég ætla ekki að staldra lengi við málsmeðferðina fram til þessa en það hlýtur að teljast með miklum ólíkindum að nefndin hafi skilað af sér nefndarálitum í pörtum undir 2. umr. þessa stóra máls. Þannig er nýkomið fram framhaldsnefndarálit. Fyrra nefndarálit var gefið út áður en umsagnir höfðu borist og málið jafnvel tekið út úr þingnefndum og afgreitt til þingsins. Það skiptir sem sagt í raun og veru engu máli hvað umsagnaraðilar ætluðu að segja um málið. Meiri hlutinn hafði þegar komist að niðurstöðu.

Þegar segir í þingsályktunartillögunni sem liggur hér frammi, samhliða frumvarpinu, að við eigum að nota þau vinnubrögð og þá niðurstöðu sem fengin er með þessu verklagi sem grundvöll að framhaldi málsins hlýtur maður að koma hér upp til að hreyfa athugasemdum, annað er ekki hægt.

Í þessu ljósi finnst mér rétt að við tökum umræðuna um þörfina fyrir breytingar á 79. gr. Fram til þessa hefur verið rætt um breytingar á 79. gr. við allt aðrar aðstæður og í allt öðru andrúmslofti þar sem almennt hefur verið gengið út frá því að menn mundu í framhaldinu leita sem víðtækastrar sáttar. Þetta vildi ég sagt hafa áður en málið fer til nefndar.