141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:00]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem lagt var fram hér í dag og samþykkt að taka á dagskrá með afbrigðum. Við þekkjum forsögu þessa máls, innan þingsins eru raddir sem krefjast þess að allri stjórnarskránni verði umbylt. Sem betur fer hafa menn nú hætt við þau áform, eins og ég skil tíðindi dagsins, og leggja þess í stað fram það mál sem við ræðum hér og nú. Ég hef haldið því fram lengi að þetta mál, breytingin á stjórnarskránni, hafi verið í miklum ógöngum og að menn hafi ekki lagt það niður fyrir sér, þeir sem voru að reyna að bera þetta mál hér uppi, með hvaða hætti þeir ætluðu að klára það í þinginu. Ég hef ítrekað kallað eftir því í forsætisnefnd á undanförnu einu og hálfu til tveimur árum að gefin yrði út og okkur yrði færð í hendur tímaáætlun um það með hvaða hætti menn ætluðu að halda á þessu máli í gegnum þingið. Sú tímaáætlun kom aldrei og svo fór, sem allir þekkja, að mál þetta strandaði uppi á skeri.

Frú forseti. Við lítum yfirleitt á stjórnarskrána okkar sem klettinn í hafinu, grunninn að samfélagi okkar, grunninn að þeim reglum sem við síðan innleiðum með almennri löggjöf. Það á aldrei að vera þannig að sá klettur og sú kjölfesta sem stjórnarskráin er verði undir þeim skilmálum að hægt sé að sveifla henni til og breyta eftir því hvernig stemningin er í samfélaginu dag hvern. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa stífar þær reglur sem gilda um breytingar á stjórnarskrá. (Gripið fram í.) Lítill ráðandi þingmeirihluti á hverjum tíma eða minni hluti kjósenda á ekki að geta stjórnað því og komið í gegn veigamiklum stjórnarskrárbreytingum. Þetta ákvæði 79. gr. stjórnarskrárinnar, ákvæði um það með hvaða hætti við breytum stjórnarskránni, er eitt mikilvægasta ákvæði hennar og þess vegna notaði ég nánast allan minn tíma í umræðu um heildarbreytingar á stjórnarskránni sem menn reyndu að keyra hér í gegn í að tala um það.

Þess vegna hef ég mikinn áhuga á að ræða um það frumvarp sem hér birtist okkur. Ég hef á því sterkar skoðanir sem ég hef áhuga á að komi fram.

Við þekkjum núgildandi ákvæði stjórnarskrárinnar um það með hvaða hætti á að breyta henni. Tvö þing þurfa að samþykkja stjórnarskrárbreytingar og það er erfitt að breyta stjórnarskránni. Það er vegna þeirra kenninga sem ég vísaði hér til sem hafa verið ríkjandi í stjórnskipunarrétti um að það eigi ekki að vera auðvelt að breyta stjórnarskrá. Ég er sammála því grundvallarsjónarmiði. Þau ríki sem búa við stjórnarskrárbundið lýðræði og hafa skráða stjórnarskrá eru jafnan með þannig reglur að það er vandað mjög til þess með hvaða hætti eigi að setja stjórnarskrá og hvernig hægt sé að breyta henni. Þeim ákvæðum og þeim stífu reglum er ætlað að stuðla að því að það náist sem breiðust samstaða og sátt meðal þeirra sem hafa það hlutverk að setja stjórnarskrá og meðal þjóðarinnar um stjórnarskrárbreytingar. Og það er vegna þess að þetta er grundvöllurinn, vegna þess að stjórnarskráin er kjölfestan og vegna þess að með þessum hætti er stuðlað að því að sem flestir geti samsamað sig þeim breytingum sem gerðar eru á stjórnarskrá, að sem flestir séu sammála þeim breytingum.

Í umræðu um stjórnarskrána á þessu kjörtímabili hefur oft verið fullyrt að henni hafi aldrei verið breytt. Það er sögð svo mikil íhaldssemi í þinginu og að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo tregur í taumi að aldrei nokkurn tímann hafi verið hægt að breyta nokkrum sköpuðum hlut. Þetta er rangt. Ef menn skoða söguna sést að stjórnarskránni hefur margoft verið breytt. Í öll þau skipti hefur það verið gert þannig að það hefur verið reynt að ná pólitískri samstöðu í þinginu um breytingarnar. Menn hafa þurft að setjast saman yfir hlutina til að eiga einhverja von um að koma í gegn stjórnarskrárbreytingum, koma þeim í gegnum tvö þing, boða til kosninga þeirra á milli, áður en breytingarnar taka gildi. Þetta hefur veitt Alþingi það mikið aðhald að menn hafa tekið yfirvegaðar ákvarðanir. Ég held að þetta sé gott fyrirkomulag og ég held að reynslan af þeim hamförum og æsingi sem síðast birtist okkur í umræðunum hér í dag, þeirri gríðarlegu heift sem hefur verið í þessari umræðu, sýni okkur að við verðum að hafa þessa stífu reglu. Við eigum að hafa stífa reglu þannig að tíðarandinn og skapið hlaupi ekki með menn í gönur, að menn láti ekki stjórnast af einhverjum öðrum hagsmunum en akkúrat þeim að reyna að ná yfirvegaðri sátt um grundvöllinn og kjölfestuna í samfélaginu, samfélagssáttmála okkar, stjórnarskránni. Reynslan, sérstaklega í vetur og á þessu kjörtímabili, á að sýna okkur þetta.

Ég fjallaði örlítið um það í ræðu minni um stjórnarskrárbreytingarnar til hvaða sjónarmiða væri helst hægt að líta varðandi 79. gr. Það þarf að tryggja að lítill hluti þjóðarinnar geti ekki ráðið því hvernig stjórnarskráin er. Ég er í sjálfu sér ánægð með að það frumvarp sem hér liggur fyrir er öðruvísi en sú breyting og tillaga sem stafaði frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við 2. umr. málsins og tel að sú umræða sem fór fram við þá umræðu hafi skilað sér. Við sjáum þess stað að það er einhver viðleitni í þessari tillögu til að hafa háa þröskulda, a.m.k. einhverja þröskulda. Fjölmargir umsagnaraðilar tjáðu sig um 79. gr., þ.e. breytingarákvæðið í frumvarpinu sem var hér til umræðu, og tóku þar til hvaða sjónarmið það eru helst sem líta þarf til.

Í fyrsta lagi þarf að líta til þess að stöðugleiki og festa verði áfram grundvöllurinn í stjórnskipuninni og þá þarf að tryggja að háværir minnihlutahópar geti ekki stjórnað umræðunni. Við þekkjum það og höfum orðið vitni að því undanfarin ár hvernig fjölmiðlar hafa náð að stýra athygli fólks og stýra umræðu um ákveðin mál. Við þekkjum að það er hægt að hafa gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag með miklum áróðri í gegnum fjölmiðla. Við verðum að passa okkur á því að skapa ekki þannig umgjörð um stjórnarskrána okkar að það sé á stuttum tíma hægt að ráðast í gagngerar breytingar án þess að nægileg yfirsýn og yfirvegun komi til, án þess að reynt sé að ná samstöðu um þær breytingar. Það fyrirkomulag að aðeins þurfi eitt þing til að ná saman breytingum á stjórnarskrá tekur í raun úr sambandi það mikilvæga verkfæri sem ýtir okkur hér, þingheimi, bæði fyrir og eftir kosningar til að ná samstöðu og sátt. Breið sátt á að vera grundvöllurinn að breytingum á stjórnarskrá.

Jafnframt hefur komið fram hjá þeim umsagnaraðilum sem gerðu athugasemdir á fyrri stigum málsins að ef menn vilja láta fara fram sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar sé rétt að hafa þröskuld á þann hátt að krafist sé lágmarksþátttöku. Þegar stjórnarskráin var samþykkt árið 1944 var það skilyrði sett að meiri hluti kjósenda þyrfti að mæta á kjörstað til að samþykkja breytingarnar. Það kemur jafnframt fram í umsögnum að danska fyrirkomulagið er þannig að meiri hluti þeirra sem taka þátt og að minnsta kosti 40% kjósenda á kjörskrá þurfi að samþykkja breytinguna. Hér er þröskuldur sem ég tel að þeir menn sem leggja fram þetta frumvarp hefðu betur litið til.

Í því frumvarpi sem við ræðum er enginn þröskuldur um það hversu stór hluti þjóðarinnar þurfi að taka þátt, heldur er einungis áskilið að 3/5 greiddra atkvæða samþykki frumvarpið. Mér finnst þetta allt of lágur þröskuldur. Ef menn ætla að gera breytingu á 79. gr. verða menn að setja þröskuld varðandi þátttöku. Ég kalla eftir umræðu um það af hverju menn telji nauðsynlegt að leggja fram þetta frumvarp. Af hverju eiga einhverjar aðrar leikreglur að gilda um stjórnarskrána okkar til 30. apríl 2017? Hver eru nákvæmlega rökin fyrir því? Ég hef ekki heyrt þau, ég hef ekki séð þau og það eina sem ég get ímyndað mér er það að menn eru að reyna að leggja fram eitthvert mál til að segja að þeir hafi þó náð fram einhverjum breytingum á stjórnarskránni. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að mér finnst í ljósi reynslunnar hér í vetur og allt þetta kjörtímabil ljóst að við þurfum aga í þinginu. Við þurfum aðhald til að knýja okkur til þess að vinna saman að stjórnarskrárbreytingum til að ná fram þeirri hugsun, og halda henni, að það eigi að ríkja sem mest sátt um stjórnarskrárbreytingar. Þess vegna tel ég algjöran óþarfa að samþykkja þetta frumvarp og tel að ekki nokkur rök hafi komið fram fyrir því að það sé nauðsynlegt hér og nú að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Þess vegna mun ég ekki samþykkja það.

Ég verð hins vegar að segja að ég er mjög ánægð með að menn hafi séð ljósið varðandi þá furðulegu tillögu sem var hér í umræðunni og stafaði frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að það ættu að vera tvær aðferðir til að breyta stjórnarskránni. Það var afskaplega undarleg tillaga og til þess fallin að vekja mikinn rugling og skipta stjórnarskránni einhvern veginn upp í A- og B-hluta, þ.e. meira og minna mikilvæga kafla. Ég fagna því að hér eru ekki neinar æfingar í þá áttina.

Frú forseti. Hins vegar tel ég að ef við berum saman þá tillögu sem hér liggur frammi og núgildandi ákvæði 79. gr. stjórnarskrárinnar fórnum við allt of miklu varðandi festu og kröfu um samstöðu með því að fara í einhverjar æfingar eins og hér er lagt til. Ég sé ekki ástæðu til þess og hef ekki heyrt rökstuðning fyrir því af hverju eitthvað annað ætti að gilda til 30. apríl 2017 en gilt hefur frá 1944. Ég tel einfaldlega að breytingarákvæði stjórnarskrárinnar eins og það er hafi uppfyllt þær kröfur og þá grundvallarhugsun sem almennt er í gildi í lýðræðisríkjum sem styðjast við stjórnarskrár, að það sé vandað mjög til verka við setningu og breytingar á stjórnarskrá og að ákvæðinu hafi tekist að stuðla að því að ná samstöðu og sátt um stjórnarskrárbreytingar og ekki bara meðal þeirra sem sitja í þessum sal heldur einnig meðal þjóðarinnar.

Ég fer ekki ofan af því að grundvallarreglur ríkisins og okkar, þjóðarinnar, varðandi stjórnarskrána eiga að taka sem minnstum breytingum, það á ekki að gera nema að yfirveguðu ráði og með þeim hætti að sem flestir geti samsamað sig þeim breytingum.

Frú forseti. Það verður spennandi að fylgjast með umræðunni hér, það verður spennandi að fylgjast með því með hvaða hætti þeir sem bera þetta mál fram rökstyðja nauðsyn á því að einfalda það hvernig við breytum stjórnarskránni, fella niður girðingar og þá grundvallarreglu að stjórnarskrárbreytingar skuli ekki gera nema að yfirveguðu ráði og að það sé fullreynt og reynt með öllum (Forseti hringir.) tiltækum ráðum að ná samstöðu og sátt um þær breytingar.