141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, með síðari breytingum. Við vitum öll hvers vegna þetta mál er komið fram. Það er vegna þess að fjögurra ára ferli breytinga á stjórnarskránni er löngu komið upp í kletta. Það hefur hins vegar verið erfitt fyrir marga hv. stjórnarliða að viðurkenna það og horfast í augu við staðreyndir. Ég verð þó að hæla þeim hv. þingmönnum sem flytja frumvarpið fyrir að reyna að gera gott úr því eins og hægt er að gera. Það er auðvitað hjákátlegt að eftir allt það ferli sem málið hefur verið í skuli það enda með þessu móti og ástæðan eru náttúrlega sú hvernig lagt var af stað í upphafi málsins.

Síðan virðist þetta snúast um það, eins og svo oft áður, að sérstakir erindrekar stjórnarliða fara að reyna að koma sökinni á aðra. (Utanrrh.: Ertu að tala um mig?) Já, hæstv. utanríkisráðherra. Eftir að hafa hlustað á hæstv. utanríkisráðherra í útvarpsþætti í einum morgunþættinum á Bylgjunni hugsaði ég með mér: Er það virkilega þannig að þegar menn eru búnir að vera svona lengi í stjórnmálum hafi þeir ekki nægileg prinsipp til að viðurkenna að þeir séu búnir að klúðra málinu sjálfir eða stjórnmálaflokkar þeirra? Ég velti því fyrir mér. Eða snýst þetta bara um að reyna að setja einhverja mynd út í þjóðfélagið, til kjósenda, sem hv. þingmenn, í þessu tilfelli hæstv. utanríkisráðherra, teikna upp af málinu. (Utanrrh.: Þetta er svona.) Já, hæstv. utanríkisráðherra segir að málið sé svona. En svona blasir það ekki við mér. Mér finnst hv. þm. Árni Páll Árnason hafa litið mun raunsærra á málið en það. Það gefur augaleið að málið er löngu komið út í skurð, hvað sem mönnum finnst um það, en mér finnst dapurlegt þegar menn reyna síðan að koma því yfir á aðra. Væri ekki nær fyrir okkur að hugsa aðeins við hvað getum lært og nýtt okkur af þeirri reynslu sem við höfum fengið í gegnum umfjöllun og undirbúning þessa máls? Nei, það virðist nefnilega snúast um hvernig á að reyna að selja þjóðinni eða einhverjum þröngum hópi kjósenda þá hugmynd að málið hafi klúðrast. Það virðist vera þannig.

Ég verð að viðurkenna að mjög fáir í mínu kjördæmi kalla eftir því að málið sé klárað. Það eru hins vegar miklu fleiri sem skilja ekki af hverju forgangsröðunin í þinginu er með þessum hætti, af hverju við erum ekki frekar að reyna að leysa stærstu málin sem snúa að þjóðinni. Það er í fyrsta lagi efnahagsmálin, atvinnumálin, til að gefa fólkinu von. Hæstv. utanríkisráðherra sá sérstakt tækifæri til þess hér og hefur gert það oftar en einu sinni að hæla því hversu vel stjórnarskráin hefur staðið af sér svokallað hrun eða hrunið. (Utanrrh.: Aldur stjórnarskrárinnar …) Aldur stjórnarskrárinnar, segir hæstv. utanríkisráðherra. Hvernig stendur þá á því að svo mikilvægt er að breyta henni? Er það virkilega svo mikilvægt? Það getur vel verið að aðrir líti þannig á. Ég deili ekki þeim skoðunum. Ég verð að segja að þegar maður heyrir suma hv. þingmenn koma og tala eins og þeir séu þjóðin þá er manni öllum lokið. (Gripið fram í.) Ég hef ekki orðið var við að þjóðin sé að kalla eftir þessu. Það eru háværir minnihlutahópar sem gera það, sem hafa aðgang að fjölmiðlum, það er nú bara þannig. Og það skulum við horfast í augu við. Ég verð að minnsta kosti ekki var við þann stóra hóp þjóðarinnar, allan þann fjölda, kalla eftir þessum breytingum.

Ef maður setur þetta í samhengi — ég velti fyrir mér í kvöld þegar ég horfði á fréttirnar á Stöð 2 hvað þetta skyldi hafa verið langt innslag. Fjórða, fimmta frétt var um að stjórnarskrármálið væri búið eftir fjögurra ára ferli. Ekki var leitað neinna viðbragða hjá neinum hv. stjórnarliðum hvers vegna málið væri svo komið og hvort það væru ekki stórtíðindi. Nei, þetta voru nokkrar sekúndur í fréttatímanum. Er það kannski vegna þess að fréttamenn Stöðvar 2 og fréttastjórar meta það svo að ekki þurfi að fjalla meira um þetta mál? Það hefði einhvern tíma verið sagt að þeir hefðu puttann á púlsinum. Þetta er því alveg með ólíkindum.

Síðan þurfum við að ræða annað af hreinskilni og ég tók það aðeins fyrir í fyrri ræðu minni um málið. Það er mjög umhugsunarvert og mér þótti það góð ábending hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni þegar hann benti á að þessi umræða væri í raun og veru að hefjast þegar hv. stjórnarliðar komu hingað rétt eftir að hún byrjaði og sögðu: Nú erum við í miðri umræðunni. En fullt af hv. þingmönnum eru ekki búnir að halda eina einustu ræðu. Það er auðvitað gríðarlegt ofmat.

Síðan kemur framhaldsnefndarálit upp á 80–90 blaðsíður. Ég velti því fyrir mér, ég hef ekki náð að lesa í gegnum þetta allt saman, hvað er í raun og veru mikið eftir af tillögum stjórnlagaráðs. Búið er að tæta þetta í sundur hingað og þangað, út og suður. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki áttað mig á því, hef ekki getað gefið mér tíma til að fara yfir það.

Ef maður fer yfir þetta kjörtímabil, segjum að þetta mál klúðrist núna, þá verður það þriðja stærsta mál ríkisstjórnarinnar. Það er Evrópusambandið, menn deildu um hvort því verði lokið 2009–2010 eða fyrri hluta árs 2011, því er ekki lokið enn. Fiskveiðistjórnarmálið, allir þekkja það klúður, rugl og vitleysu (Gripið fram í: Sem betur fer …) sem hefur alltaf fengið falleinkunn hjá öllum og búið er að leggja fram fjögur eða fimm frumvörp og það er allt í skrúfunni enn þá. Stjórnarskrármálið sem hæstv. forsætisráðherra barði á nýja árinu í gegnum þingið hvað eftir annað. (Menntmrh.: Rólegur.) Ég er ekki mjög slæmur, hæstv. menntamálaráðherra, enda er ég ekki farinn að hugsa um Hörpu. Þetta er allt í eintómu tjóni. Ég velti fyrir mér, ef maður skoðar þetta aðeins, hver skyldu hafa verið þrjú erfiðustu mál ríkisstjórnarinnar? Það eru nefnilega málin sem við hefðum átt að sleppa. Það er aðildin að Evrópusambandinu. Það hefði alveg mátt setja það í annan búning og hafa ekki átök um það með því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu á undan. Og það var hið ógeðfellda landsdómsmál sem verður þinginu til ævarandi skammar og síðan Icesave-samningarnir. Þetta eru þrjú tímafrekustu málin á þinginu sem við öll vitum hvernig hafa farið. Það hefði kannski verið nær að nota tímann til meiri sátta og samvinnu en gert hefur verið.

Það gæti líka verið ágætt þegar maður flettir í gömlum skjölum að vitna til orða hæstv. forsætisráðherra í upphafi kjörtímabilsins. Ég ætla að vitna orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, svo ég fari ekki með neina vitleysu eða snúi út úr því.

„Segja má að ríkisstjórnin byggi á samkomulagi um nýja byrjun, nýtt gildismat. Það hefur orðið viðhorfsbreyting meðal almennings í landinu. Það hefur myndast samstaða um önnur gildi en þau sem mest hafa verið í hávegum höfð á undanförnum árum. Það hefur myndast samstaða um samábyrgð fólks, við erum öll á sama báti.“

Síðan hefur hæstv. ríkisstjórn ekki gert neitt annað en að sundra þjóðinni sem mest, það er bara þannig, og fyrir það getur enginn þrætt. Þetta er allt heimatilbúinn vandi hæstv. ríkisstjórnar. Það er auðvitað mjög dapurlegt.

Ég ætla að nefna annað sem við í stjórnarandstöðunni verðum líka að horfa til eða að minnsta kosti geri ég geri það. Þegar við köllum eftir breytingum á vinnubrögðum og breytingarnar verða þá er það mjög sérkennileg staða þegar hingað koma hv. þingmenn sem álíta sig vera einu talsmenn þjóðarinnar og segja: Ef við klárum ekki þetta mál þá komum við með vantrauststillögu, hóta því, draga það fram og til baka og hún er komin núna aftur á dagskrá, án þess að ég ætli að fjalla um þá vitlausu tillögu, hvernig hún er upp sett. Því verður maður að spyrja og það ætla ég að gera áður en ég greiði í atkvæði um þá tillögu: Getur verið að maður geti krafist þess að breytt sé um vinnubrögð? Svo þegar orðið er við því og vinnubrögðum breytt, er það þá rökrétt framhald á því að styðja það vantraust? Það er eitt sem við verðum að spyrja okkur öll og það ætla ég að gera. Það er ekki alltaf hægt að saka aðra um óbilgirni og gera síðan ekki kröfur til sjálfs sín. Ég þarf því að hugsa mig vandlega um áður en sú tillaga kemur hingað til afgreiðslu.

Þessi tillaga fjallar um hvernig við viljum standa að því að breyta stjórnarskránni. Það er alveg skýrt dæmi um mikilvægi þess að lækka ekki þá þröskulda sem fyrir eru. Þá veltir maður fyrir sér, og við getum svo tekið efnislega umræðu um það og farið betur í gegnum það eftir að málið hefur farið til nefndar og til umsagnar, hvort æskilegast sé að gera það með þessu móti. Ég hefði talið skynsamlegra að gerð væri lágmarkskrafa um þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það getur vel verið að það sé ekki rétt mat hjá mér en það er að minnsta kosti mín skoðun að lágmarksþátttöku þurfi til.

Við sáum og það sem mér fannst — jú, ég held að það sem hafi bjargað þátttökunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni um spurningarnar síðast hafi verið spurningin um þjóðkirkjuna, ég held það. (Utanrrh.: … hana aftur.) Já, hæstv. utanríkisráðherra bendir á þá hugmynd að hægt sé að hafa hana aftur. Ég þekki mjög marga sem tóku þátt í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu eingöngu út af spurningunni sem sneri að kirkjunni. Ég vil segja, virðulegi forseti, að við þurfum að læra af meðferð þessa máls. Og það þurfum við við öll að gera, öll, ekki bara einhverjir stjórnarliðar, heldur allir, hvernig við getum komið þessu í annan farveg og látum ekki múgæsing, örfáar háværar raddir, leiða okkur inn á einhverjar villigötur. Við verðum að standa föst á því sem við erum að gera.

Við höfum séð útifundi og mótmælafundi út af þessu máli, þetta eru nokkrar hræður, nokkrir tugir, 30–40 manns. Þetta þykir rosalega merkilegt. Ég er ekki að gera lítið úr skoðunum þessa fólks að vilja breyta stjórnarskránni, alls ekki. Þeir voru fjölmennari mótmælafundirnir þar sem fólkið krafðist þess að eitthvað yrði gert í skuldamálum heimilanna. Þar voru nokkur þúsund manns og við munum öll eftir þeim atgangi sem þar var. Við megum ekki og eigum ekki að nálgast þetta verkefni með þeim hætti að segja sem svo að við séum alltaf með hina einu réttu lausn. Ég held að mest um vert sé eftir allt það ferli sem á undan er gengið að líta hvert og eitt í eigin barm og reyna að læra af því hvaða mistök voru gerð í þessu ferli, hvað hefði mátt betur fara til að okkur gangi betur í framtíðinni að gera skynsamlegar breytingar á stjórnarskránni.

Það gekk fram af mér þegar ég sá einn aðila af stjórnlagaþingi koma fram og segja: Hér er hið eina rétta plagg. Það má ekki breyta punkti eða kommu. Það er algerlega óskiljanlegt hvernig fólk getur komið fram. Og þegar hv. þingmenn kalla þetta valdarán og slíkt, það er náttúrlega ekki boðlegt, virðulegi forseti.

En ég held fyrst og fremst að við þurfum öll að líta í eigin barm og átta okkur á því hversu mikilvægt það er að læra af málinu og hætta með upphrópanir og vitleysisgang, og koma þessu í einhvern farveg. Stjórnarskráin er það stórt mál að við eigum ekki að fara í pólitískan slag með það. Það er nóg af öðrum málum sem við getum farið í pólitískan slag með.