141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fjörlegu ræðu. Eins og jafnan fer hann með himinskautum þegar hann talar. Á köflum verð ég að viðurkenna að mér fannst ræða hv. þingmanns ekki mjög málefnaleg, en undir lok hennar má segja að hann hafi drepið fæti eða tám niður í efnið sem er til umræðu, þ.e. þá tillögu sem þrír hv. þingmenn og formenn stjórnmálaflokka hafa lagt fram.

Mér fannst meira að segja örla á því að hv. þingmaður væri að tala sig inn á að þrátt fyrir það sem hann kallaði sjálfur mistök í þessu máli væri kannski flötur á því að finna eins konar samkomulag í því. Það eina sem hv. þingmaður fann að þessari tillögu var að hann taldi að ef sú leið yrði farin sem þar var lögð til yrði, a.m.k. frá sjónarhóli hans og kannski hans góða flokks, einhver lágmarksþátttaka að vera tryggð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég kannast við það sjónarmið. Ég hef setið í stjórnarskrárnefnd með þremur fulltrúum flokks hv. þingmanns, þar af einum fyrrverandi formanni og forsætisráðherra flokksins. Þar var líka uppi þetta sjónarmið. Mér finnst það sjónarmið alveg fyllilega þess virði að taka það til skoðunar og ég tel að ef hv. þingmaður er að segja hugsanlegt að gera því skóna að það þurfi ekki 3/5 meiri hluta, kannski 2/3 eins og ég var alltaf hlynntur, en setja einhvers konar skilyrði um þátttöku segi ég fyrir mína hönd, en ekki minna pólitísku vandamanna, ég tala bara fyrir mig, að mér finnst það skoðunar virði. Ef það getur orðið til þess að ná einhvers konar sátt um það finnst mér það innlegg í málið.