141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er sjarmerandi en þó erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn hvað sjálfstæðismenn eru inn í hjartað og til tauga og nýrna rosalega íhaldssamir. Einn af þeim þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem ég sat með í stjórnarskrárnefnd var mjög tregur í taumi þegar kom til umræðu að ganga frá breytingum. Hann var þeirrar skoðunar að það ætti helst ekki að breyta stjórnarskránni nema lítið og sem sjaldnast. Ég minnist þess þegar ég spurði hann hversu oft hann gæti hugsað sér að breyta stjórnarskránni og hann sagði: Ja, svona einu sinni á öld. Hann stendur mér til hægri handar í gáttinni og ég veit að hann kannast við þessi orð. Það er svo sem ekki það vitlausasta sem sagt hefur verið frá sjónarhóli hans.

Ég er þeirrar skoðunar að í þessu máli eigi menn að reyna að finna farveg sem sem flestir geti sætt sig við. Hv. þingmaður talar fyrir hönd þess flokks sem hefur verið hvað óánægðastur með þessa málsmeðferð þótt lagt hafi verið af stað eins og formaður flokksins lagði til, þ.e. með þjóðfundi sem mér fannst takast vel.

Allt um það, málið er í þeirri stöðu sem það er í núna. Spurningin er hins vegar hvort það sé hægt að finna einhvers konar flöt til að fella það í farveg sem margir og sem flestir geti unað við. Sú tillaga sem hér er undir er merkileg fyrir þá sök að hún heldur því áfram opnu að menn eru að vinna að breytingum á stjórnarskránni á ákveðnum grundvelli. Þá er lagt til að hægt sé að gera það með þeim hætti að Alþingi samþykki það og síðan fari sú breyting í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eina sem hv. þingmaður hefur mælt því í gegn er að hann vill gjarnan hafa ákveðinn þröskuld og tiltaka lágmarksþátttöku. Mér finnst það þess virði að skoða það en hv. þingmaður sagði ekkert um það, ekki heldur fyrir sína persónulegu hönd, hvort hann telur að í slíkri tilslökun gæti verið einhvers konar sáttaflötur.