141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að nota tíma minn til að draga fram það sem kann að vera ólíkt í skoðunum okkar hæstv. menntamálaráðherra í þessu máli þó að þar sé af nógu að taka. Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra hvaða gildi hún telji að þau þingmál sem lögð hafa verið fram í dag hafi gagnvart því hvaða ákvarðanir nýtt þing, sem kosið verður 27. apríl eða fyrr, taki í þessu sambandi. Telur hún að það þjóni einhverjum tilgangi að taka þessi þingmál sérstaklega fyrir og afgreiða þau núna á síðustu dögum þingsins þegar ljóst er að þing verður kjörið innan fárra vikna? Það verður að öllu líkindum töluvert öðruvísi samsett en það þing sem nú situr. Er ætlunin með þessum þingmálum að binda með einhverjum hætti hendur þess þings sem tekur við? Telur hæstv. ráðherra að þessi þingmál hafi eitthvert gildi umfram til dæmis almennar yfirlýsingar formanna flokkanna?