141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna komum við akkúrat að samstöðuþættinum. Nýtt þing getur tekið nýjar ákvarðanir um hvað eina sem áður hafa verið teknar ákvarðanir um. Ef einhver tiltekinn ferill er ákveðinn nú á næstu dögum hér í þinginu mun nýtt þing geta breytt honum ef til þess er vilji hjá nýju þingi, það er augljóst.

Innan tveggja mánaða verður kjörið nýtt þing. Það verður trúlega öðruvísi samsett, við vitum ekki hver okkar verða þar áfram, við vitum ekki hvernig hlutföll flokka verða. Að hvaða leyti teljum við okkur þess umkomin að binda hendur þeirra sem á eftir koma þegar ljóst er að það er verulegur ágreiningur um marga þætti í þessu máli?

Varðandi þingsályktunartillöguna ætla ég að fjalla nánar um þær athugasemdir sem ég hef við hana hér á eftir en varðandi frumvarpið verð ég að segja að mér finnst eins og menn ætli sér að finna sér einhverja léttari leið til þess að koma þeim breytingum í gegn sem hér liggja fyrir, að verið sé að búa til hjáleið fram hjá þeim varnöglum sem er að finna í núverandi stjórnarskrá. Ég get verið reiðubúinn til að skoða breytingar á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar, en ég hef ekki góða tilfinningu til þess að gera breytingar sem fela í sér hjáleið, hvað þá svona tímabundna bráðabirgðahjáleið eins og þarna er lagt upp með. Auk þess mundi ég vilja slá það í gadda, svo að maður noti orðalag sem stundum er notað hér í þinginu, að ekki verði (Forseti hringir.) léttara að breyta stjórnarskrá en er í dag, jafnvel þótt þeim þætti verði með einhverjum hætti bætt við ferlið að þjóðaratkvæðagreiðsla (Forseti hringir.) sé síðasti liðurinn í því, það sem endanlega ræður úrslitum um hvort (Forseti hringir.) stjórnarskrárbreytingar nái fram að ganga eða ekki.