141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég ekki einn af flutningsmönnum frumvarpsins og get ekki svarað fyrir þá. Hitt segi ég alveg skýrt við hv. þingmann að ég hef hvergi komið að umræðum þar sem það hefur leikið nokkurt hlutverk eða verið nefnt.

Ef guðirnir færu nú þeim höndum um Ísland, ég segi nú ekki þann sem hér stendur, að það mundi gerast á næsta kjörtímabili að íslenska þjóðin mundi samþykkja aðild að Evrópusambandinu hygg ég að hafi hún tekið þá ákvörðun mundi hún sömuleiðis vera reiðubúin til þess að breyta stjórnarskránni þegar að því kæmi og þyrfti. Ég held að hv. þingmaður geti gengið að því vísu ef svo færi, ég vona að hann sé að gera að því skóna að vaxandi líkur séu á að aðild yrði samþykkt, þá mundi það væntanlega fylgja með undir lok kjörtímabilsins, en þar skiptir þessi breyting engu máli. Slík breyting yrði þá án efa samt samþykkt á Alþingi ef það yrði niðurstaða þjóðarinnar. Það hygg ég.