141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel ekki að það skipti máli. Ef sú staða kæmi upp að þjóðin hefði samþykkt aðild að Evrópusambandinu held ég að það mundi leiða til þess, hvort sem það yrði innan kjörtímabilsins eða þá á þarnæsta kjörtímabili, að menn mundu ráðast í nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni.

Ég held líka að eitt af því sem geri það mikilvægt, jafnvel fyrir hv. þingmann ef svo mundi nú æxlast að hann væri kannski í stjórnarliði á næsta kjörtímabili, jafnvel í ráðherrastóli, er að leiðir væru til þess að breyta stjórnarskránni ef svo færi að sú staða kæmi upp innan EES að við þyrftum að geta brugðist við innleiðingu tilskipana sem núverandi stjórnarskrá leyfir ekki. Sú staða gæti komið upp að hv. þingmaður og hans flokkur væri þeirrar skoðunar að Íslandi væru þær breytingar farsælar og þar af leiðandi að gott væri að hafa leið til þess að geta gert þær án þess til dæmis að þurfa að rjúfa þing að breyttri stjórnarskrá áður. Sú staða gæti vel komið upp.