141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

vatnalög og rannsóknir á auðlindum í jörðu.

634. mál
[21:55]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923, og lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til ákveðnar breytingar á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, og vatnalögunum margfrægu, nr. 15/1923, í því skyni að samræma reglur um vatnsréttindi í anda vatnalaga. Þetta frumvarp er í samræmi við tillögur í skýrslu starfshóps sem iðnaðarráðherra skipaði um endurskoðun auðlindalaga, svonefndrar grunnvatnsnefndar og fram kom í maí 2012. Sú skýrsla var í framhaldinu kynnt í ríkisstjórn. Frumvarpið er jafnframt lagt fram og unnið á grunni þeirra breytinga sem gerðar voru á vatnalögum í lok árs 2011 og er til samræmis við þau. Þar voru gömlu vatnalögin frá 1923 uppfærð og treyst enn frekar í sessi en fallið frá gildistöku þeirra vatnalaga sem samþykkt voru á Alþingi árið 2006 og hverra gildistöku hafði ítrekað verið frestað.

Í þessari skýrslu og í niðurstöðum svonefndrar grunnvatnsnefndar kom fram sú eindregna afstaða starfshópsins að rétt væri að færa ákvæði um grunnvatn, þ.e. vatn neðan jarðar, sem verið hafði í auðlindalögum frá 1998, inn í sjálf vatnalögin og jafnframt að skilgreina nánar hugtakið grunnvatn og þær takmarkanir á eignarráðum landeiganda sem lúta að grunnvatni. Það er nákvæmlega þessi breyting sem lögð er til með frumvarpinu. Með henni er leitast við að tryggja að lagaþróun að því er varðar vatn verði í framtíðinni samræmd, hvort sem varðar yfirborðsvatn eða grunnvatn.

Sá aðskilnaður sem er í lögum í dag og varð í reynd lögfestur upp að vissu marki árið 1998 á reglum er varða annars vegar grunnvatn og hins vegar yfirborðsvatn stenst tæpast út frá vatnafræðilegu sjónarmiði og augljóst að þekking manna á eðli grunnvatns og samspili yfirborðsvatns og grunnvatns er önnur í dag en menn sáu fyrir, sérstaklega þegar vatnalögin voru sett á sínum tíma 1923. Áður en menn hófu að bora eftir vatni beindu menn eðlilega sjónum að yfirborðsvatninu og gáfu minni gaum að því sem var undir yfirborðinu. Þó voru í þeim lögum nokkur ákvæði um svonefnd „minni háttar vötn“ sem vissulega vísuðu niður í grunnvatnsflötinn. Hér er lagt til að þetta verði samræmt þannig að samfelldur og einsleitur lagarammi gildi um vatnið óháð því hvort það er á yfirborði eða neðan jarðar.

Meginefni frumvarpsins er nánar tiltekið það að í I. kafla þess eru gerðar breytingar á vatnalögunum og eru þær efnislega fjórþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að gildissvið vatnalaga, sem kemur fram í 1. mgr. 1. gr., verði víkkað að því leyti að lögin nái einnig fortakslaust til grunnvatns.

Í öðru lagi er lagt til að við 1. gr. laganna bætist skilgreining á hugtakinu grunnvatn. Samræmis vegna er lagt til að sú skilgreining verði nánast samhljóða þeirri sem er að finna á sama hugtaki í auðlindalögum, nr. 57/1998.

Í þriðja lagi er lagt til að skýrt komi fram í 9. gr. laganna, sem fjallar um fyrrnefnd minni háttar vötn, að sú grein nái einnig til grunnvatns. Í reynd má segja að það hafi verið andi vatnalaganna á sínum tíma þó að framsetningin hafi verið í takt við nálgun manna til vatnsins á þeim tíma, samanber sem áður sagði að þau lög eru sett fyrir daga borana og annarra slíkra hluta. Þannig fari um grunnvatn með sama hætti og kveðið er á um í 9. gr. varðandi minni háttar vötn og eru ákveðin rök fyrir því þar sem til svonefndra minni háttar vatna hafa jafnan verið talin jarðvötn, hverir, laugar, ölkeldur, lindir og önnur slík fyrirbæri. Þá leiðir af sjálfu að um eignarrétt landeigenda gilda sömu reglur hvað grunnvatnið varðar og hin minni háttar vötnin.

Í fjórða lagi er lagt til að ákvæði auðlindalaga, nr. 57/1998, að því er varðar útgáfu rannsóknarleyfa og nýtingarleyfa, nái jafnframt til rannsóknar og nýtingar á vatnsauðlindum og þá að sjálfsögðu bæði yfirborðsvatni og grunnvatni. Eru þau ákvæði auðlindalaga nokkuð ítarlegri en þau ákvæði vatnalaga sem lúta að stjórnsýslu og hvaða framkvæmdir séu tilkynningarskyldar og leyfisskyldar. Um þetta allt er nánar fjallað í athugasemdum með frumvarpinu og vísast til þess.

Í seinni kafla laganna, þ.e. II. kafla, eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Í fyrsta lagi er lögð til breyting með það fyrir augum að gæta samræmis milli gildissviðs vatnalaga og auðlindalaga að því er grunnvatn varðar og því tekið fram að um eignarrétt landeiganda að grunnvatni fari samkvæmt 9. gr. vatnalaga, nr. 15/1923.

Í öðru lagi er lögð til breyting, og þar er að vísu um óskylda breytingu að ræða en sem tengist þó engu að síður samspili auðlindalaga, nr. 57/1998, og 40. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að því er varðar rannsóknarleyfi. Verði sú breyting að lögum verður unnt að veita leyfi til að rannsaka orkulindir til undirbúnings raforkuvinnslu, leyfi sem ekki er eingöngu bundið við rannsókn innan netlaga heldur einnig utan. Menn hafa litið svo á, vegna þess hvernig frá þessu hefur verið gengið, að eingöngu væri heimilt að veita t.d. rannsóknarleyfi vegna mögulegra sjávarfallavirkjana innan netlaga. Með þessari breytingu er horft til þess að auðvitað gætu möguleikar á sjávarfallavirkjunum verið víðar við strendur og í fjörðum landsins, en hingað til hefur eingöngu verið heimilt að veita rannsóknarleyfi innan netlaga vegna slíkra virkjunarkosta. Hefur það varla verið ætlun manna eða vilji löggjafans að hafa það svo til framtíðar.

Frumvarpið er unnið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að höfðu miklu samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Orkustofnun og starfshópinn sem skilaði skýrslunni, svonefnda grunnvatnsnefnd. Nánar er þetta allt saman rakið í allítarlegri greinargerð sem frumvarpinu fylgir. Loks kemur fram að ekki er gert ráð fyrir því að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér nein útgjöld fyrir ríkissjóð.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.