141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða stöðu stjórnarskrárinnar. Eins og þingheimur veit erum við hv. þm. Þór Saari báðir áhugamenn um gerð nýrrar stjórnarskrár en greinir eilítið á um stöðu málsins. Ég hef talið hyggilegt að ræða hér auðlindaákvæði og framhaldslíf vinnunnar en hv. þingmaður telur betra að fara fram með vantrauststillögu áður en búið er að tryggja málinu eitthvert framhald. Ég hvet þingmanninn til að stíga varlega til jarðar í þessum efnum því að það er morgunljóst að ef vantrauststillaga þingmannsins verður samþykkt og ekki er búið að tryggja málinu framhaldslíf verður ábyrgðin á því að hafa stöðvað stjórnarskrármálið hjá einum þingmanni — og bara einum þingmanni. Það er staða málsins. (Gripið fram í.)

Að öðrum kosti óska ég framsóknarmönnum hjartanlega til hamingju með samþykktir flokksþings flokksins 10. febrúar sl. en þar er kveðið skýrt á um að nýtt auðlindaákvæði sé ein mikilvægasta breytingin sem þurfi að gera við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Grasrótin í Framsókn er skýr: Auðlindir eru sameign þjóðarinnar, tryggja verður þjóðinni sanngjarnan arð af sameiginlegum auðlindum og nýtt auðlindaákvæði á að tryggja eignarrétt ríkis og sveitarfélaga.

Þetta eru skýr skilaboð frá grasrótinni í Framsóknarflokknum, þetta er mikilvægt enda hvergi nokkurs staðar í ályktun flokksþingsins kveðið á um að réttur til nýtingar skapi eignarrétt með einum eða öðrum hætti. Hvergi nokkurs staðar er það að finna í samþykkt Framsóknarflokksins að nýtingarréttur skapi eignarrétt.

Þetta er mikilvægt eins og allir vita vegna þess að um langa hríð hefur staðið yfir deila við útgerðarmenn um hvort nýting þeirra á sjávarauðlindinni skapi þeim eignarrétt. En flokksþing Framsóknarflokksins er skýrt:

Þjóðin á auðlindina, þjóðin á arðinn sem auðlindin skapar og það er mikilvægt að tryggja þann rétt í stjórnarskrá.

Nýtingin skapar engan eignarrétt, það er þjóðin sem á auðlindina, segir Framsókn í sinni ályktun. Grasrót flokksins er skýr. (VigH: Gott að hafa talsmann.) [Kliður í þingsal.]