141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Umræðan er eins og hér sé ekki stjórnarskrá í gildi og það er verið að kalla eftir því hvaða stjórnarskrá verði í gildi í framtíðinni. Við eigum góða stjórnarskrá sem er lög nr. 33/1944 þannig að það er enginn efi að landið á sér stjórnarskrá.

Ég hef stundum sagt að forgangsröðin í þinginu á þessu kjörtímabili sé dæmalaus. Ég hef bent á að það borðar enginn stjórnarskrána. Afar fjölmennur og stór hópur í samfélaginu samanstendur af eldri borgurum og fötluðum einstaklingum. Þann 1. júlí 2009 fór ríkisstjórnin fram með lagafrumvarp til skerðingar bóta til þessara hópa og svo var hnykkt á því enn frekar í fjárlögum ársins 2010. Þessar réttarbætur hafa ekki verið teknar til baka af ríkisstjórninni þrátt fyrir að þessi lög sem sett voru um innrás í tekjur þessara hópa hafi átt að vera tímabundin. Forgangsröðin er slík að ríkisstjórnin hefur lítið gert til þess að rétta hag þessa hóps.

Það er einkennilegt í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur öll þau ár sem hún hefur setið á þingi, og þau eru nú orðin ansi mörg eins og við vitum, talað fyrir hönd þessa hóps. Svo þegar þessi þingmaður komst í ríkisstjórn var það gert fordæmislaust, hafði aldrei gerst áður hér á landi, að það var meira að segja ruðst inn í grunnbætur þessara hópa. Ekki hefur það verið tekið til baka eða nokkrar tillögur lagðar fram til að ná þessari kjaraskerðingu til baka. Jú, að vísu á í dag að ræða frumvarp sem telur hátt í 100 blaðsíður um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Samkvæmt starfsáætlun þingsins á þinginu að ljúka 15. mars. Það er ekki nokkur leið (Forseti hringir.) að þetta mál fái framgang á þessu þingi. Þess vegna verð ég að segja að það mætti halda að þetta væri gluggaskraut hjá ríkisstjórninni.