141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langaði undir þessum lið, um störf þingsins, að eiga orðastað við hv. þm. Birgi Ármannsson, helsta talsmann Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrármálinu, fulltrúa hans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Að minnsta kosti hefur sá hv. þingmaður haft sig mest í frammi úr þeim þingflokki í umræðum um þetta mál hingað til. Ég ætla samt að byrja á því að vekja máls á ályktunum sem komið hafa fram um auðlindaákvæði í stjórnarskrá, m.a. í ljósi þeirrar yfirlýsingar sem kom frá þingflokki Framsóknarflokksins í gær sem ég tel að hljóti að vera einhver misskilningur af þeirra hálfu. Að minnsta kosti ríma þær ekki við samþykkt 32. flokksþings framsóknarmanna þar sem sett var fram sú skoðun að auðlindaákvæðið yrði sett í stjórnarskrá sem tryggja ætti eign íslenska ríkisins utan eignarlanda. Ég tel að ályktunin frá í gær rími ekki við þetta ákvæði en framsóknarmenn munu eflaust geta skýrt út hvernig þeir hugsa það.

Það sem ég vildi eiga orðastað við hv. þm. Birgi Ármannsson um er stefna Sjálfstæðisflokksins hvað þetta varðar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þessari umræðu ekki komið fram með neinar beinar tillögur eða hugmyndir um það hvernig auðlindaákvæði í stjórnarskrá eigi að líta út um leið og hann segir að hann vilji ákvæði um náttúruauðlindir í stjórnarskrá. Ég kalla eftir því að það verði skýrt þannig að þjóðin viti hvað þar er raunverulega á ferðinni. (Gripið fram í: Í þingflokki …)

Í samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins segir, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið hlynntur því að setja ákvæði um náttúruauðlindir í stjórnarskrá. Landsfundur telur tímabært að komist verði að sátt um slíkt ákvæði en leggur áherslu á að einkaeignarrétturinn verði ávallt virtur.“

Samkvæmt þessu á hann sem sagt alltaf að ganga framar þjóðareigninni, sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindunum. Er það hin raunverulega stefna Sjálfstæðisflokksins, er það þannig sem hann vill standa að þessu máli? Hvað meinar hann raunverulega þegar hann talar um náttúruauðlindir í stjórnarskrá og hvernig rímar (Forseti hringir.) þessi áhersla á einkaeignarréttinn við áhersluna á þjóðareign og sameign þjóðarinnar á mikilvægustu náttúruauðlindum okkar?