141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið fjörlegar umræður. Ég vildi þó mótmæla þeirri söguskýringu að Framsóknarflokknum sé algjörlega eignuð 90%-lánin því að hver sá sem flettir þingtíðindum og skoðar þingræður, ég tala nú ekki um ef viðkomandi hefur verið í hv. þingnefnd sem fór með málið, veit að Framsóknarflokkurinn var dyggilega studdur af Samfylkingunni og Vinstri grænum sem skömmuðu framsóknarmenn og þáverandi ríkisstjórn fyrir að ganga ekki lengra í málinu. Það er mjög mikilvægt að menn séu algjörlega meðvitaðir um það. Ég held að það væri líka skynsamlegt að menn skoðuðu hvernig útlánastefna Íbúðalánasjóðs var undir forustu núverandi hæstv. forsætisráðherra.

Virðulegi forseti. Í gær var svari dreift við spurningu um einstaklinga sem borga auðlegðarskatt og hversu hátt hlutfall tekna þeirra fer í að greiða skattinn. Um 260 einstaklingar greiða meira en 50% af tekjum sínum í þann skatt og 60 einstaklingar sem greiða 75–100% af tekjum sínum í þann skatt. Það þýðir það, virðulegi forseti, að þetta fólk verður að selja eignir sínar til þess að greiða skattinn. Flestir sem greiða auðlegðarskatt eru 65 ára og eldri. Það fólk gat á sínum tíma ekki greitt í lífeyrissjóð og þurfti að búa til sinn eigin lífeyrissjóð.

Þær þjóðir sem lagt hafa slíkan eignarskatt á þegna sína hafa undantekningarlaust hætt því vegna þess að það hefur ekki talist samræmast stjórnarskrám þeirra landa og mannréttindasjónarmiðum. (Forseti hringir.)

Það hefur ekki mátt ræða hér, virðulegi forseti, en það er skinhelgi að ákveðnar eignir séu teknar út, sem eru kannski (Forseti hringir.) sterkustu eignirnar, þ.e. úr lífeyrissjóðum, og fólk er ekki látið greiða skatt af því, (Forseti hringir.) en það fólk sem ekki fékk að vera í lífeyrissjóðum þarf nú að selja ofan af sér (Forseti hringir.) til þess að greiða eignarskatt sem einu sinni var kallaður ekknaskattur.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk í umræðunni.)