141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lengd þingfundar.

[11:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Þegar tekin er afstaða til þess hvort ástæða sé til að hafa þingfund lengri en til stóð hljótum við að velta því fyrir okkur hvernig sá tími muni nýtast. Reynslan gefur því miður til kynna að hann muni ekki nýtast vel, heldur verður það líklega þvert á móti til þess að setja málin í enn verri hnút en þau eru í nú þegar. Ástæðan fyrir því að ég dreg þá ályktun er sú að það eru aðeins tveir dagar síðan nýir formenn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs boðuðu ný og breytt vinnubrögð. Nú ætti að reyna að klára störfin í þinginu í sátt og samlyndi með opnum huga.

Þegar menn leggja svo fram tillögu til málamiðlunar og teygja sig það langt að nota tillögu sem unnin var í samráði allra flokka af Margréti Frímannsdóttur, fyrrverandi formanni Alþýðubandalagsins og Samfylkingarinnar, Svanfríði Jónasdóttur og Lúðvíki Bergvinssyni, sérstökum aðstoðarmanni nýs formanns Samfylkingarinnar í stjórnarskrármálum, (Gripið fram í.) er þeirri tillögu algjörlega snúið á haus (Forseti hringir.) til þess að geta viðhaldið hér stríðsástandi. Menn leyfa sér að ljúga til að geta viðhaldið stríði. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Er ekki rétt að hafa þingfund sem stystan í dag?