141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lengd þingfundar.

[11:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi tek ég undir hvert orð sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði og líka orðið sem ekki má segja. En ég vil þó segja að við greiðum hér atkvæði um lengd þingfundar, og ég sakna þess, frú forseti, að við séum ekki að greiða atkvæði um lengd þingfundar til þess að taka eitthvað af þeim fjölmörgu málum sem lögð hafa verið fram á þinginu til þess að bæta stöðu íslenskra heimila og til þess að koma atvinnulífinu af stað.

Hvers vegna eru þau mál ekki hér á dagskrá? [Hávaði í þingsal.] Hvers vegna eru þau ekki tekin út úr nefndum? [Hávaði í þingsal.] Hvar eru málin til þess að leiðrétta t.d. skuldir [Hávaði í þingsal.] heimilanna? Hvar eru þau mál? (Gripið fram í.)

Jú, það eru tvö mál á dagskrá er lúta að uppbyggingu á Bakka og við fögnum þeim, tökum þau fram fyrir hin, klárum þau í hvelli, gerum það. Gerum þau að lögum þannig að hægt sé að hefja hér uppbyggingu. En hvað hefur það tekið langan tíma? Allt kjörtímabilið.

Hvar eru málin til þess að bæta stöðu heimilanna? Hvar eru málin sem eru t.d. í efnahags- og viðskiptanefnd sem lúta að verðtryggingunni og leiðréttingu lána og því að setja þak á verðtrygginguna? (Forseti hringir.) Hvar eru þau mál? Af hverju eru þau ekki á dagskrá? (Forseti hringir.) Af því stjórnarmeirihlutinn hefur engan áhuga á að koma til móts við heimilin í landinu.