141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[11:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir ræðuna. Ég verð að gera athugasemdir við það ef hann ætlast til þess að þingið afgreiði þetta mikla frumvarp um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning á þeim örfáu dögum sem eftir eru, þá er hann að sýna bæði þinginu og kerfinu mikla lítilsvirðingu. Þetta er heilmikil breyting og við getum ekki gert hana svona eins og ekkert sé, eins og það skipti ekki máli.

Fyrir 2008 greiddi Tryggingastofnun í meginþáttum þrjár tegundir lífeyris, það var ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót. Eftir þessa breytingu mun Tryggingastofnun greiða þrjár tegundir lífeyris, þ.e. ellilífeyri, uppbót á ellilífeyri og heimilisuppbót. Það er sem sagt engin einföldun. Einföldunin felst í því að framfærsluuppbótin, sem tekin var upp með reglugerð í september 2008 og hækkaði lægsta lífeyri sem Tryggingastofnun greiddi úr 150 þúsundum upp í 180 þúsund, dettur út. Hún kostaði lítið af því að það skertist króna á móti krónu og var allt að því atlaga að lífeyrissjóðunum. Það er núverandi hæstv. forsætisráðherra sem þá var hæstv. félagsmálaráðherra sem stóð að þessari reglugerð. Hún var ekkert rædd. Þetta var síðan sett í lög og inn í félagslega aðstoð.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því að þetta er í rauninni engin einföldun, hvar einföldunin liggi fyrir utan það að taka niður framfærsluuppbótina? Svo vil ég spyrja hann, ég (Forseti hringir.) kem inn á það á eftir, um væntanlegan fjölda lífeyrisþega á næstu árum.