141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[11:49]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér heyrðum við í hv. þm. Pétri H. Blöndal sem var starfandi í starfshópnum sem kom með þessar tillögur sem hér eru lagðar til grundvallar að breytingu á frumvarpinu, hann þekkir því málið mjög vel. Ég átta mig ekki alveg á því sem hv. þingmaður segir. Jú, það voru þrjár tegundir lífeyris og síðan var bætt við sérstakri framfærsluuppbót eða sérstakri framfærslutryggingu. Í þessu lagafrumvarpi er einmitt gert ráð fyrir að hún verði afnumin á næstu fjórum árum, þ.e. muni falla undir einn af lífeyrisflokkunum, ellilífeyrinn. Þessir fjórir flokkar munu þá falla undir eitt, vera með sömu skerðingarmörkum og allar tekjur munu þá skerða þennan nýja bótaflokk jafnt. Í því felst mikil einföldun og miklu meiri skýrleiki um hvað það er sem skerðir í stað þess að nú skerða ólíkir tekjuflokkar með ólíkum hætti, hvort sem það er grunnlífeyrir eða ellilífeyrir eins og það heitir núna, tekjutenginguna, heimilisuppbótina og svo þetta krónu á móti krónu ákvæði sem er í framfærsluuppbótinni.

Ég hef aldrei skilið þegar talað er um að sú viðbót hafi verið atlaga að lífeyrissjóðunum, heldur ekki að það skerði hjá öðrum þegar menn setja tryggingu til þess að hjálpa fólki til þess að fá ákveðin grunn, eins og hv. þingmaður nefndi þarna frá 150 upp í 180 þúsund, til þess að mæta þeim sem höfðu enga aðra framfærslu og áttu ekki möguleika á því og höfðu engar aðrar tekjur. Þannig er það ekki og það er vandamál í umræðunni þegar menn setja þetta fram með þessum hætti. Uppbótin er núna 210 þúsund, að vísu fyrir skatta, og ég hefði ekki viljað vera í þeim sporum að fara í gegnum niðurskurðar- og aðhaldsbreytingarnar öðruvísi en að hafa tryggt að minnsta kosti þetta lágmark. Það hefur gagnast mjög mörgum en það er alveg hárrétt að þeir sem voru með litlar greiðslur úr lífeyrissjóði nutu ekki þessarar hækkunar, enda var þetta sett sem lágmark.