141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[11:52]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætlega gerð grein fyrir þessum hækkunum inn í framtíðina í kostnaðarumsögninni, en þetta eru auðvitað hlutir sem við þurfum að skoða mjög vel. Fram hefur komið, sérstaklega frá aðilum vinnumarkaðarins og ASÍ, að einmitt vegna þess að aukið vægi lífeyrissjóða kemur inn og við erum með sterka lífeyrissjóði og uppsöfnunarsjóði þá muni jafnvel eldri borgarar standa undir aukningunni hvað varðar fjölda með tekjum sínum úr lífeyrissjóði. Það er fullyrðing ASÍ. Við höfum verið að láta skoða þetta með ólíkum hætti og auðvitað þarf að meta það áfram til lengri tíma, en fyrstu fjögur árin, fram að því að þessi breyting verði komin niður í 45%, þá erum við í raunveruleikanum ekki að tala um mikið umfram það að skila til baka því sem hefur verið skert. Það skiptir mjög miklu máli og ég vil þá heyra það frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins ef þeir eru á móti því að svo verði.