141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[11:58]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að fjárlagaskrifstofan skilar sjálfstæðu kostnaðarmati og menn geta ekkert haft nein áhrif á það. Það sem kom mjög á óvart í því mati var að sagt var að ekkert samráð hefði verið haft því fjármálaráðuneytið fékk að fylgjast með vinnunni en kallaði aldrei eftir því að koma að henni með öðrum hætti. Það hefur síðan fengið tvo mánuði til þess að fara yfir og gera greinargerð með þessu og greina málið, sem er ástæðan fyrir að það kemur svo seint fram. Það hafði nefndin eða starfshópurinn líka gert, fengið til fyrirtækið Talnakönnun, sérstaka aðila sem eru sérfræðingar í að skoða langtímaáhrif til þess að skoða málið. Það sem stóð svolítið í okkur var einmitt þetta með langtímaáhrifin, þegar kúfurinn verður hvað mestur áður en lífeyrisgreiðslur koma að fullu til framkvæmda. Ef kostnaðarmatið er skoðað þá sjá menn að hlutfall lífeyris almannatrygginga af landsframleiðslu lækkar til lengri tíma, það fer upp í byrjun og síðan kemur það aftur niður.

Þessu gleyma menn og það hefur gleymst í ríkisfjármálaáætluninni. Það er auðvitað alvarlegt mál að gera ekki ráð fyrir hækkununum með breytingu á lögunum sem er þegar búið að samþykkja, upp á 3–4 milljarða um næstu áramót, það vantar inn í ríkisfjármálaáætlunina og (Forseti hringir.) forsendur þeirra útreikninga sem þarna koma fram.