141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:02]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson spurði varðandi umönnunarbæturnar og þarf kannski aðeins betri skýringar á því svo að ég geti svarað því betur. En aftur á móti um ofgreiðslu á bótum og hvernig gengið er eftir þeim þá skiptir auðvitað mestu máli, og það kemur ágætlega fram í þessu frumvarpi og kom líka fram í ræðu minni, að reyna að hindra ofgreiðslur með því að upplýsingastreymið verði betra. Þarna er talað um að færa þetta yfir í eftirágreiðslur þannig að menn viti betur hvernig tekjurnar eru, það sé hægt að samkeyra kerfi eins og þegar hefur verið gert varðandi m.a. fjármagnstekjur til að tryggja að menn borgi réttar bætur á hverjum tíma. Það er auðvitað óþolandi staða, oft fyrir tekjulága, að þurfa að endurgreiða einhver hundruð þúsunda kr. af bótum eftir á. Það verður auðvitað meginmarkmiðið í allri vinnunni að reyna að koma hlutum þannig fyrir að ofgreiðslur verði sem minnstar.

Hins vegar er mikilvægt, og það tengist því sem við ræddum áðan um eftirlitið og eftirlitshlutverkið, að reglurnar séu mjög skýrar um hvernig farið er með það ef menn gefa t.d. með einhverjum hætti upp rangar tekjur eða fá ofgreiddar bætur sem getur verið af ólíkum ástæðum. Þá verður að vera mjög skýrt hvernig hægt er að ganga eftir þeim varðandi aðfararhæfi og slíkt. Ég hef svo sem ekki neitt sérstakt tilefni í huga, en fyrirspyrjandi, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, var með eitthvað ákveðið í huga, tilfelli eða frávik þar sem þetta getur bitnað á einhverjum öðrum. Auðvitað þarf að vera sveigjanleiki í kerfinu hvað þetta varðar. Ég held að það sé jafnmikilvægt að reglurnar séu eins skýrar og hægt er og það er hluti af markmiðinu með þessu frumvarpi að skerpa reglurnar um það hvernig menn geta gert athugasemdir og hvernig þeir geta kært, hvaða upplýsingaskylda hvílir á bæði stofnununum og ríkisvaldinu vegna þess að hér má aldrei vera um að ræða geðþóttaákvarðanir.